139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

öryggi á þjóðvegi 1 undir Eyjafjöllum.

171. mál
[17:15]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hér renna saman í eitt tvær fyrirspurnir en ég svara þeirri fyrri núna. Hún snýr að því til hvaða varanlegu aðgerða verði gripið til að tryggja öryggi á þjóðvegi 1 vegna þess gríðarlega aurs sem ár undir Eyjafjöllum bera fram í kjölfarið á eldgosinu í Eyjafjallajökli. Ég hef leitað eftir upplýsingum um þetta frá Vegagerðinni og fengið þar eftirfarandi:

Vegagerðin hefur ásamt Landgræðslu ríkisins unnið að uppbyggingu varnargarða við Svaðbælisá og staðið fyrir uppmokstri úr árfarvegi til að reyna að halda ánni í farvegi sínum. Stöðugt er fylgst með þróun mála og gripið til frekari uppmoksturs þegar á þarf að halda til að reyna að tryggja sem best þau vegamannvirki sem á svæðinu eru. Í athugun eru aðgerðir sem gætu betur tryggt varanlegri lausn og er þar einkum horft til frekari uppmoksturs og styttingu árfarvegar í von um að það auki rennslishraða í ánni þannig hún leitist frekar við að grafa sig niður en að safna undir sig framburði. Einnig kemur til álita að byggja nýja og hærri brú og hækka veg ásamt frekari uppmokstri þar sem horft er til þess að nota það efni sem mokað er upp til að hækka land meðfram varnargörðum og rækta það upp. Síhækkandi vatnsborð í árfarvegum verður til þess að grunnvatnsstaða lands meðfram þeim hækkar og verður það land því lítt nýtanlegt nema það sé þurrkað upp. Hugsanlega þarf einnig að huga að endurbótum við Holtsá og jafnvel fleiri ár undir Eyjafjöllum þegar til lengri tíma er litið. Verður fylgst náið með þróun mála, einkum framburði gosefna sem safnast fyrir og geta breytt öllum aðstæðum.

Ég fullvissa hv. þingmann um að menn fylgjast mjög grannt með þessum málum. Það sem ég hef sagt hér byggir á upplýsingum frá Vegagerðinni sem hefur unnið að þessum málum ásamt Landgræðslu ríkisins.