139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

dýpkunarframkvæmdir í Landeyjahöfn.

172. mál
[17:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um það hvaða varanlega lausn verður fundin á dýpkunarframkvæmdum í Landeyjahöfn. Eins og mönnum er kunnugt urðu verulegar breytingar á aðstæðum við höfnina í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli, enda ber Markarfljótið fram með sér gríðarlegt magn gosefna á degi hverjum sem síðan kemst inn í höfnina. Þrátt fyrir að menn hafi gert ráðstafanir og gert ráð fyrir því að um varanlegar dýpkunarframkvæmdir yrði alltaf að ræða í höfninni, sérstaklega meðan höfnin væri ný — stýrihópurinn sem annaðist framkvæmdina áttaði sig á því — gerðu þessar náttúruhamfarir leikinn að sjálfsögðu mun erfiðari og gjörbreyttu í rauninni forsendum. Þá er ljóst að það þarf að hafa öflugan dýpkunarbúnað í höfninni og því er eðlilegt að hæstv. samgönguráðherra fái hér sviðið til að útskýra fyrir okkur með hvaða hætti þessi varanlega lausn verði fundin. Hvaða aðgerðir eru í pípunum hjá ráðherranum varðandi þetta málefni?

Ég tel að við sem höfum staðið að þessu verkefni og höfum haft trú á því frá upphafi séum enn sömu skoðunar. Hins vegar eru forsendur breyttar vegna aðstæðna hér á landi, náttúruaflanna sem við fáum ekki alltaf ráðið við, en með íslensku hugviti hlýtur að vera hægt að finna lausn. Við ættum að horfa til þeirra aðgerða og tillagna sem bæjarráð Vestmannaeyjabæjar lagði til á fundi sínum 16. nóvember, en þar var bókað að það yrði að fá til landsins öflugt dýpkunarskip svo fljótt sem verða mætti. Þá yrði áætlun Herjólfs breytt til að hann færi fleiri ferðir í björtu og sigldi á þeim tíma sem stórstreymisfjara væri. Jafnframt leggur bæjarráðið til að það verði tryggt að ferðir verði alltaf frá Eyjum kl. 7.30 og 13 þegar ekki gefur til siglinga í Landeyjahöfn og síðan úrbætur til handa farþegum varðandi upplýsingagjöf.

Það er alveg ljóst að siglingar í Landeyjahöfn eru framtíðin. Framtíðarsamgöngur Vestmannaeyja koma til með að vera í gegnum höfnina. Við þurfum hins vegar hratt og örugglega að finna bestu lausnina á því hvernig við tökumst á við þessar dýpkunarframkvæmdir. Ég tel alveg ljóst að hvort sem er hafi ekki verið til nægilega öflugur dýpkunarbúnaður. Þótt gosið hefði ekki komið til hefði okkur engu að síður skort betri dýpkunarbúnað og við getum þar m.a. horft til dýpkunarframkvæmda við Hornafjarðarhöfn þar sem menn hafa stöðugt verið í vandræðum með ósinn þar.

Það verður áhugavert að heyra viðbrögð hæstv. samgönguráðherra, þess vaska manns sem væntanlega (Forseti hringir.) ætlar að leysa þetta mál hratt og vel.