139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

dýpkunarframkvæmdir í Landeyjahöfn.

172. mál
[17:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það ríkti mikil gleði bæði í Rangárvallasýslu og Vestmannaeyjum þegar Landeyjahöfn var opnuð og það ríkti mikil gleði almennt fyrstu vikurnar eftir að höfnin opnaði. Margir sögðu að það væri nánast eins og að koma til útlanda því að fólki hafði fjölgað svo mikið í Eyjum. En síðan hafa vonbrigðin orðið að sama skapi mjög mikil.

Það sem ég vildi spyrja um hvað þetta varðar og þær tillögur sem komu fram í máli hæstv. ráðherra er eftirfarandi: Talað er um að semja eigi við Íslenska gámafélagið, eiga þeir skip eða tækjabúnað til að geta tekist á við þetta verkefni. Það virðist hafa komið fram að þau dýpkunarskip sem eru til staðar í landinu hafi hreinlega ekki ráðið við það verkefni að halda höfninni opinni. Hvað er talið að það muni taka langan tíma að fara í gegnum það ferli sem þarf að fara til að geta hafið framkvæmdir við nýjan varnargarð eða til að færa Markarfljót?

Síðan vildi ég líka bæta við spurningunni: Hvaða rannsóknir liggja fyrir um að (Forseti hringir.) þetta sé í raun og veru tímabundið, að þetta tengist fyrst og fremst vindáttunum sem hafa verið ríkjandi í vetur og (Forseti hringir.) svo því mikla magni af aur sem er koma niður í Markarfljót og þetta sé ekki eitthvað sem hafi verið til staðar fyrir eldgosið?