139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

dýpkunarframkvæmdir í Landeyjahöfn.

172. mál
[17:31]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Sú röskun sem hefur orðið á ströndinni og hegðun hennar með gosinu í Eyjafjallajökli hefur breytt aðstæðum auk þess sem vindáttir hafa ekki verið hefðbundnar eins og hæstv. ráðherra vék að.

Það verður þó að leiðrétta einn misskilning sem kom bæði fram hjá hæstv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra, það er ekki sandburður inni í höfninni. Sandburðurinn fer fram hjá höfninni. Það er taumur sem fer fram hjá höfninni, eins konar sandskafl, og það er það sem stoppar siglinguna inn í höfnina. Vandamálið varðandi dýpkunarskipið Perlu er að það skip þolir ekki að vera í sjógangi. Það er gott innan hafnar, það er duglegt innan hafnar í kyrrum sjó, mjög duglegt, en það skilar engum árangri um leið og eitthvað hreyfir báru og þó að það sé kallað sléttur sjór. Þetta er vandamálið, (Forseti hringir.) það er þetta sem þarf að leysa, að hafa skip sem þolir a.m.k. eins og hálfs til tveggja metra ölduhæð.