139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

dýpkunarframkvæmdir í Landeyjahöfn.

172. mál
[17:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegur forseti. Það eru greinilega skiptar skoðanir um þetta mál. En ég vil beina því til hv. þm. Marðar Árnasonar að anda aðeins rólega, það á eftir að koma í ljós hvort þetta muni ganga en ég hef nú mikla trú á því samt.

Hæstv. ráðherra rakti í ræðu sinni að það væri verið að skoða þrjár leiðir. Í fyrsta lagi að fá gámaþjónustuna til að dýpka, í öðru lagi að fá plóg í samvinnu við Vestmannaeyjar við lóðsinn þar og í þriðja lagi að fá staðbundinn búnað sem menn hafa reynslu af í Englandi. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um kostnaðinn við hverja aðgerð fyrir sig eða hvort það komi til greina að gera þetta allt í einu, hvort hann telji þörf á því.

Auk þess vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það hafi verið skoðað sérstaklega, af því að sandburður er þekkt vandamál víða, að setja sandfangara fyrir austan höfnina, þ.e. sem væri þá fyrir vestan Markarfljótið þegar búið væri að færa það, sem mundi hefta það að sandurinn færi með ströndinni.