139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

dýpkunarframkvæmdir í Landeyjahöfn.

172. mál
[17:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir ágætissvör. Ég fagna því sérstaklega að hv. þingmenn á höfuðborgarsvæðinu blandi sér í umræðuna og það er eðlilegt að menn spyrji einfaldra spurninga um það hvernig skattfé almennings er nýtt. Ég fagna því.

Hins vegar er öllum ljóst, hélt ég, að Markarfljótið hefur flæmst til yfir ströndina í Rangárþingi í árhundruð og kemur til með að gera það áfram þangað til því verður fundinn fastur farvegur með varnargörðum. Þannig er þetta einfaldlega.

Mig langar að beina einni fyrirspurn til hæstv. ráðherra varðandi þann fasta dælubúnað sem ráðherrann vék að, þennan „bypass“-búnað sem til stendur að kaupa og fjárfesta í til að viðhalda höfninni. Hvenær gerir ráðherrann ráð fyrir að sá búnaður verði kominn, er búið að bjóða þau kaup út og, hvernig er staðan varðandi það? Það er mikilvægt að vita þetta vegna þess að það hefur alltaf verið ljóst í öllum áætlunum varðandi uppbyggingu hafnarinnar að það þyrfti að vera til búnaður til að dæla út sandi. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir og þeir sem kynna sér undirbúningsgögnin varðandi framkvæmdina sjá þetta strax. Það er mikilvægt að menn séu upplýstir um þetta.

Hins vegar held ég að menn hafi misreiknað sig varðandi það hversu öflugan búnað þyrfti og að sjálfsögðu gerðu menn ekki ráð fyrir hinum miklu náttúruhamförum, enda stóðu menn í þeirri meiningu að Eyjafjallajökull væri latt eldfjall sem mundi ekki bæra á sér næstu árhundruðin. En þetta er einfaldlega verkefni sem við þurfum að takast á við. Við búum á eldfjallaeyju og þetta er eitt af því sem því fylgir. Ég er fullviss um að lausn finnst á þessu stóra verkefni og ég heyri að það er hugur í ráðherranum. Þetta er bara spurning um tímasetningar og hvenær búnaðurinn verður kominn á sinn stað.