139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

ný Vestmannaeyjaferja.

173. mál
[17:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Siglingastofnun hafði það verkefni að bjóða út smíði á nýrri ferju til siglinga milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja. Útboð fór fram og bárust tvö gild tilboð, það hagstæðara var frá þýskri skipasmíðastöð og nam 28 millj. evra. Komið var að undirskrift samnings þegar efnahagskerfið hrundi á Íslandi 2008, eins og við þekkjum öll til, og var þá hætt við smíðina. Ákveðið var að nota Herjólf með þeim annmörkum að frátafir yrðu meiri en stefnt var að með nýju skipi.

Það er rétt að lagt hefur verið til af stýrihópi um byggingu Landeyjahafnar að byggð verði ný ferja sem kæmi í gagnið 2013, 2014. Ljóst er að til lengri tíma litið hlýtur ný ferja að vera sá kostur sem stefnt verður að. Í það verkefni eru þó engir peningar til í dag og ekki fyrirsjáanlegt hvenær það verður. Við megum líka gæta að því að fara ekki fram úr sjálfum okkur í þessum efnum en auðvitað verður þessari hugsun og þessari vinnu haldið áfram þó að það hafi komið í hana tímabundið stopp.