139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

veiðikortasjóður.

124. mál
[18:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það eru mörg málin sem heyra undir Alþingi og að mörgu að hyggja. Sum mál eru ekki jafnáberandi og önnur en það er hins vegar afskaplega mikilvægt að við rækjum eftirlitshlutverk okkar á öllum sviðum og ekki síst þegar kemur að umhverfismálum.

Í ansi langan tíma hefur verið til nokkuð sem heitir veiðikortasjóður og ekki ætla ég að rekja neitt sögu sjóðsins hér, en um hann hafa verið miklar umræður, sérstaklega í ákveðnum hópi manna, meðal veiðimanna sem hafa með málefnalegum hætti komið þeim sjónarmiðum á framfæri að það mætti vera skýrari og betri stjórnsýsla í kringum þann ágæta sjóð. Ég vildi þess vegna, með leyfi virðulegs forseta, spyrja hæstv. umhverfisráðherra, átta spurninga í tengslum við þann sjóð. Spurningarnar eru þess eðlis að þær skýra sig nokkuð sjálfar:

1. Af hverju fjármagnar veiðikortasjóður vöktun rjúpu en Náttúrufræðistofnun vöktun annarra dýrastofna?

2. Hversu miklu fé hefur verið úthlutað til rjúpnarannsókna úr veiðikortasjóði frá árinu 1995? Hvers vegna hefur ekki verið úthlutað fé til gæsarannsókna?

3. Er til sundurliðun á kostnaði við rjúpnarannsóknir samkvæmt bókhaldslyklum? Hversu mikill er hluti dagpeninga, aksturs o.s.frv.? Er vinna sérfræðinga innan húss við rjúpnarannsóknir gjaldfærð sem útseld vinna?

4. Hvað ræður úthlutunum úr veiðikortasjóði?

5. Hefur verið haft samráð við veiðimenn eða Umhverfisstofnun um úthlutanir úr sjóðnum?

6. Hefur Náttúrufræðistofnun sótt formlega um styrki úr sjóðnum frá árinu 2006?

7. Hyggst ráðherra nýta sér tillögur nefndar frá 2001 um úthlutunarreglur veiðikortasjóðs?

8. Er til stofnskrá fyrir veiðikortasjóð?

Þetta eru þær spurningar sem brunnið hafa á mörgum sem hafa hagsmuna að gæta. Þetta eru yfirgripsmiklar spurningar en ég treysti hæstv. ráðherra til að fara vel yfir þær og við munum síðan ræða þær í framhaldinu. Svo höfum við auðvitað tækifæri til að fylgja málinu eftir, virðulegi forseti.