139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

veiðikortasjóður.

124. mál
[18:14]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum enn. Ég vil leyfa mér að vitna í bréf sem mér barst á dögunum, nánar til tekið 15. nóvember, frá Skotveiðifélagi Íslands, en þar segir, með leyfi forseta:

„Á fundi sínum 15. nóvember var stjórn Skotvíss kynntar nýjar verklagsreglur fyrir veiðikortasjóð. Stjórnin lýsir ánægju með þessar nýju reglur og telur þær til mikilla bóta.

Stjórn félagsins vill með bréfi þessu þakka umhverfisráðherra fyrir hröð og örugg vinnubrögð og skilning hans á ábendingum Skotvíss um úrbætur á úthlutunarreglum sjóðsins.“

Ég hef lagt mikið upp úr því að verklagsreglurnar séu á netinu. Þær eru sýnilegar þar. Öll úthlutun er birt á netinu og eins forsendur fyrir þeim. Það hefur ekki verið gert fyrr en nú. Þarna er um opinbert fé að ræða og úthlutun þess þannig að það er einboðið að það ber að vera skýrt og gagnsætt. Félagið hefur lagt margt mjög gott til málanna. Samstarfið við skotveiðimenn hefur verið gríðarlega gott og upplýsandi og hefur fyrst og fremst orðið til þess, eins og fyrirspyrjandi nefnir, að eyða ákveðinni tortryggni sem var milli aðila í þessu máli og tel ég að við séum búin að koma því í gott lag.

Ég vænti þess að sjóðurinn muni nú nýtast enn betur en áður. Meðal annars er í þeim breytingum sem gerðar hafa verið á regluumhverfinu gert ráð fyrir því að annað hvert ár sé haldin ráðstefna um þau verkefni sem ráðstafað hefur verið í úr veiðikortasjóði þannig að þá ætti líka að gefast tækifæri fyrir vísindasamfélagið til að skiptast á skoðunum og upplýsingum um þennan mikilvæga málaflokk.