139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

starfsemi og rekstur náttúrustofa.

182. mál
[18:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Ég er kominn til að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvernig hún hyggst standa vörð um starfsemi og rekstur náttúrustofa á komandi árum. Þessi fyrirspurn er þörf að mínu viti í ljósi þess að það fjárlagafrumvarp sem við horfum upp á boðar heilmikinn niðurskurð á rekstri náttúrustofa vítt og breitt um landið.

Við sem þekkjum starfsemi náttúrustofa vitum að þær eru mjög mikilvægar í byggðalegu tilliti og hafa verið fyrirmynd að uppbyggingu svokallaðra þekkingarsetra á landsbyggðinni sem víða hafa verið byggð upp við hlið þessa reksturs. Heilmikil uppbygging hefur verið vítt og breitt um landið í þessum þekkingariðnaði, vil ég segja, vegna þess að þessar stofur hafa stundað grunnrannsóknir á náttúru Íslands að eigin frumkvæði og í samstarfi við aðrar rannsóknastofnanir og háskóla. Þannig höfum við aukið þekkingu okkar á náttúru Íslands sem er forsenda markvissrar náttúruverndar og skynsamlegrar nýtingar landsins.

Þar sem ég þekki hvað best til er Náttúrustofa Norðausturlands en uppbygging hennar og saga þeirrar merku stofu er glæst að mínu viti og hafa margir ungir fræðimenn starfað þar við rannsóknir. Samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem blasir við okkur eða eins og frumvarpið er sett fram er gert ráð fyrir 68% niðurskurði á milli ára á fjárframlagi til Náttúrustofu Norðausturlands á Húsavík. Nú gerum við okkur flestöll grein fyrir því að það þarf að draga saman í ríkisútgjöldum, en 68% niðurskurður kallar fram orðtakið „fyrr má nú rota en dauðrota“. Ég tel að hæstv. umhverfisráðherra fái upplagt tækifæri til að greina frá því að svo mikill niðurskurður upp í hátt í 70% verði ekki að veruleika hjá þessari stofu né heldur svo umfangsmikill niðurskurður hjá öðrum náttúrustofum hringinn í kringum landið. Sú starfsemi sem þarna hefur byggst upp á undangengnum árum er okkur mjög mikilvæg, sérstaklega á þessum tímum þegar náttúruvakning og náttúruvernd og vitneskja gagnvart okkar nánasta umhverfi hefur færst í aukana með mikilli umhverfisvakningu í samfélaginu.

Ég vil í mikilli vinsemd biðja hæstv. umhverfisráðherra að koma hingað upp og greina frá einhverri stefnubreytingu er varðar þann hrikalega niðurskurð sem blasir við í fjárlagafrumvarpinu. Við munum vonandi á vettvangi þingsins (Forseti hringir.) ná í samstarfi við ráðherrann að vinda ofan af þessu.