139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

starfsemi og rekstur náttúrustofa.

182. mál
[18:19]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á því mikilvæga máli sem náttúrustofurnar eru og þeirra umhverfi. Sannast sagna er rétt að þær hafa þurft að taka á sig hagræðingarkröfu eins og allir aðrir í samfélaginu. Ekki eru tölurnar kannski nógu nákvæmar hjá þingmanninum en ég vona að mér auðnist að varpa ljósi á þær í þessu stutta svari.

Nú eru starfandi sjö náttúrustofur á landinu en þær eru í eigu og á ábyrgð þeirra sveitarfélaga sem að náttúrustofunum standa. Umhverfisráðuneytið styrkir náttúrustofurnar árlega til rekstrar þeirra samkvæmt sérstökum samningi milli þess og sveitarfélaganna. Í fjárlögum ársins 2011 nemur sú fjárhæð 7,9 millj. kr. á hverja náttúrustofu eða í allt 55,3 millj. kr. Þau sveitarfélög sem að náttúrustofu standa eru svo skyldug til að leggja fram a.m.k. 30% af framlagi ríkisins til rekstrar stofunnar.

Auk hefðbundins rekstrarframlags ríkisins hafa náttúrustofurnar fengið árlega fjárstyrk til að sinna rannsóknum sem Alþingi hefur ákveðið. Á árinu 2010 nam sérstakt framlag, ákveðið af Alþingi, til rannsókna 6,4 millj. kr. á hverja náttúrustofu samkvæmt fyrrgreindum samningi ráðuneytisins og viðkomandi sveitarfélaga eða í allt 44,8 millj. kr. Sú tala er ekki í þeirri niðurskurðartölu sem þingmaðurinn nefnir í spurningu sinni.

Auk þess má nefna að á árinu 2008 var sérstaklega veitt 8 millj. kr. framlag til Náttúrustofu Vestfjarða til að koma á fót þróunarsetri á Patreksfirði og 2009 voru veittar 8 millj. kr. til náttúrustofunnar á Húsavík, sem þingmaðurinn nefndi í spurningu sinni, til að efla sérstaklega vinnu við vöktun fuglalífs í Þingeyjarsýslum. Báðar þessar fjárveitingar voru hluti af ráðstöfun sem ríkisstjórnin ákvað að grípa til með hliðsjón af skýrslu nefndar um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum, Norðurlandi eystra og Austurlandi.

Náttúrustofurnar starfa á grundvelli laga nr. 92/2002, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Þær gegna lögum samkvæmt mikilvægu hlutverki sem varðar að safna gögnum og varðveita heimildir um náttúrugögn, stunda vísindalegar náttúrurannsóknir, einkum í þeim landshluta sem náttúrustofan starfar, veita ráðgjöf, sinna rannsóknum og sjá um vöktun að beiðni sveitarfélaga, stuðla að æskilegri landnýtingu og náttúruvernd og veita fræðslu um umhverfismál og loks að annast almennt eftirlit með náttúru landsins í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar.

Eins og áður segir er starfsemi náttúrustofa mjög mikilvægur liður í því að umhverfismálum og náttúruvísindum sé sinnt um land allt sem og að fræðsla og þekking á náttúru- og umhverfismálum sé sem víðtækust í landinu.

Hluti af markmiðum mínum sem ráðherra umhverfismála er einmitt að auka og efla þekkingu á náttúru landsins og þá með leiðarljós sjálfbærrar þróunar í huga. Sú starfsemi sem fer fram á náttúrustofunum vítt og breitt um landið fellur vel að þeim markmiðum og vil ég því sjá þær þróast og eflast og að samvinna þeirra á milli aukist sem og annarra stofnana ráðuneytisins og þá sérstaklega Náttúrufræðistofnunar Íslands sem sinnir svipuðum verkefnum.

Þar sem þessar tölur eru nefndar, virðulegi forseti, og menn hafa nefnt allt að 67,8% í niðurskurðarkröfu í fjárlagafrumvarpinu verðum við að gæta þess að bera saman sambærilegar tölur, að við berum saman framlag innan ramma umhverfisráðuneytisins því að viðbótartölur hafa komið ár hvert frá fjárlaganefnd. Ef gætt er að þeim staðreyndum er það mat umhverfisráðuneytisins að náttúrustofurnar taki á sig 9,3% hagræðingarkröfu eins og aðrar stofnanir ráðuneytisins að jafnaði. Hins vegar hef ég og við í ráðuneytinu átt í nokkrum bréfaskiptum við náttúrustofurnar og skal tekið fram að ég hef verið í afar góðu samstarfi við þær og hef á þeim miklar mætur en okkur greinir enn töluvert á um hver niðurskurðarkrafan sé. Í nýjasta bréfi sem ég hef fengið frá Samtökum náttúrustofa eru náttúrustofurnar þeirrar skoðunar að niðurskurður grunnframlags nemi tæpum 17% en ekki 9,3% þannig að enn höfum við ekki sammælst um hver niðurstaðan sé, en hún er sannarlega ekki 68%.