139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

ofanflóðavarnir í Neskaupstað.

183. mál
[18:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Þá hefjast fastir liðir eins og venjulega. Þetta mál höfum við rætt áður í myrkri, við hæstv. umhverfisráðherra, ég held að það sé akkúrat ár síðan ég innti hæstv. ráðherra eftir því hvað liði því að ráðast í framkvæmdir vegna snjóflóðavarna í Tröllagili í Neskaupstað.

Þessi framkvæmd og reyndar margar aðrar framkvæmdir á sviði ofanflóðavarna eru tilbúnar til útboðs og væri því ekkert að vanbúnaði að koma þeim af stað. Ég get nefnt staði eins og Ísafjörð, Fjallabyggð og Fjarðabyggð og þar er ég sérstaklega að vekja athygli á þessu verkefni sem hefur verið tilbúið til útboðs í fjölmörg ár.

Nú er það svo að ofanflóðasjóður er ekki beint við fátæktarmörk, ég held að það sé ekki hægt að orða það þannig. Eignir hans eru á áttunda milljarð króna og fjármagnstekjur sjóðsins eru því um 500–600 millj. á ári og sérstakt iðgjald af brunatryggingum er annað eins, þannig að það sem sjóðurinn er að fá á ári hverju er trúlega rúmlega milljarður króna í tekjur vegna þessara þátta. Þess vegna velti ég því fyrir mér af hverju hæstv. ráðherra hefur ekki beitt sér fyrir því að heimila ofanflóðasjóði að fara í þessar framkvæmdir. Það þarf sérstakar heimildir á fjárlögum til þess að þetta fari fram, a.m.k. vilyrði stjórnvalda. Ég man að hæstv. umhverfisráðherra ýjaði að því í fyrra að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði viljað sýna eitthvert aðhald þegar kæmi að rekstri ríkissjóðs og menn hafi vísað jafnvel í einhverja þenslu. Nú er henni ekki fyrir að fara. Það er mikill samdráttur á þessum markaði fyrir austan er snertir verklegar framkvæmdir og reyndar má tala um það fyrir norðan og vestan að við tölum ekki um höfuðborgarsvæðið. Ég tel því einboðið og kannski ekki síst vegna öryggis og síðast en ekki síst öryggis fólksins á þessum svæðum að fara í þessar framkvæmdir. Ég vil minna á að í mínum heimabæ, á Siglufirði, voru hús rýmd um miðjan vetur í fyrra. Það á náttúrlega ekki að bjóða fólki upp á að þurfa að búa við það að hús séu rýmd þegar illa viðrar.

Þessum öryggisþáttum verðum við að koma í lag, sérstaklega vegna þess að við búum við þá löggjöf og líka þá fjármuni sem eru eyrnamerktir til þessara framkvæmda hjá ofanflóðasjóði að við ættum að ráðast í þessar framkvæmdir hið fyrsta. Með því mundum við bæta búsetuskilyrðin á þessum svæðum, við mundum líka auka umsvif efnahagslífsins og þar með mundi sú jákvæða lausn myndast að atvinnuleysi yrði mögulega minna á þessum svæðum og í landinu og við mundum vonandi sjá hagfelldari hagtölur en við höfum séð hingað til. En aðalatriðið er öryggið, herra forseti, og ég spyr í annað sinn á jafnmörgum árum hæstv. ráðherra: Hvenær verða þessi mannvirki boðin út?