139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

ofanflóðavarnir í Neskaupstað.

183. mál
[18:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er algerlega sammála hæstv. ráðherra og þeim hv. þingmanni sem hóf umræðuna að það væri mjög skynsamlegt að nýta þessa peninga vegna þess að ofanflóðasjóður á milli 7 og 8 milljarða í eigin fé sem væri hægt að nýta. Það er alveg borðleggjandi við þær aðstæður sem nú eru uppi í atvinnumálum á landinu, sérstaklega vegna þess að það er mjög mikið atvinnuleysi hjá verktökum sem vinna þessi verk og á sama tíma erum við líka að skera niður, eins og hæstv. ráðherra benti á, í nýframkvæmdum í vegagerð sem eru þá sömu verktakarnir. Það er gríðarlega mikilvægt að þetta nái fram að ganga til þess að minnka atvinnuleysi og koma hjólunum af stað. Síðast en ekki síst er þetta náttúrlega gríðarlega mikið öryggismál fyrir íbúa á viðkomandi svæðum.

Ég vil, virðulegi forseti, halda áfram að hvetja hæstv. ráðherra til dáða í þeirri samningaumleitan sem hún í er við fjármálaráðuneytið og ég bíð bara spenntur eftir því og vona að hún hafi árangur sem erfiði þar.