139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

ofanflóðavarnir í Neskaupstað.

183. mál
[18:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Þetta er miklu skemmtilegri umræða en ég átti við hæstv. ráðherra fyrir ári síðan. Mér finnst miklu meiri baráttuhugur og baráttuandi einkenna orðræðuna hjá hæstv. ráðherra. Þegar hún nefnir hér að við þurfum jafnvel einungis að bíða í nokkra daga, mesta lagi vikur og þá verði þær ekki margar, eftir niðurstöðu í þessu máli þá er það mjög ánægjulegt vegna þess að þessi verkefni eru meira og minna tilbúin til útboðs.

Reyndar saknaði ég þess hjá hæstv. ráðherra að hún minntist á framkvæmdir fyrir austan og vestan og gleymdi framkvæmdum á Miðnorðurlandi en ég nefndi það í máli mínu áðan að þar er líka mikilvægt að hefja undirbúning framkvæmda. Það væri gott að fá örlítið meiri viðbrögð frá hæstv. ráðherra hvað þá framkvæmd varðar. Ég tek undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að það eru gríðarlega miklir fjármunir til í þessum sjóði og ef ekki á að nota þá til þeirra verkefna sem eru tilbúin til framkvæmda veit ég ekki hver tilgangur þessa sjóðs er. Við eigum að setja okkur markmið um að ráðast í þær aðgerðir sem ég nefndi áðan. Þetta mun skila sér í því að öryggi íbúanna á viðkomandi svæðum verður tryggara en áður. Hjól atvinnulífsins á viðkomandi svæðum munu fara að snúast. Við höfum verið að ræða um það á þinginu á undangengnum vikum hvernig við getum minnkað atvinnuleysi í landinu. Ég hef aðeins skoðað umfang þessara framkvæmda og á verktímanum á næstu þremur, fjórum árum væri hægt að fjölga ársverkum í íslensku samfélagi um nokkur hundruð störf. Það munar um minna fyrir Atvinnuleysistryggingarsjóð, það munar um minna fyrir viðkomandi samfélög hvert sú innspýting mundi leiða til í formi aukinna skatttekna og þar fram eftir götunum.

Ég er mjög ánægður með svör hæstv. ráðherra um að við munum ná niðurstöðu í þetta mál á næstu dögum og innan örfárra vikna, helst sem allra fyrst. En ég árétta spurningu mína til hæstv. ráðherra um að það eru fleiri staðir á landinu sem þurfa á þessum öryggisþáttum að halda en þeir tveir sem hún nefndi í svari sínu áðan.