139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er nýútkomin þjóðhagsspá fyrir árin 2010–2015 sem hefur verið endurskoðuð. Í þeirri spá er gert ráð fyrir því að landsframleiðslan dragist saman um 3% á þessu ári í stað þess sem við vonuðumst til þegar við lögðum af stað í þessa vegferð eftir hrunið, að hún væri farin að vaxa. Þó er talið að hagvöxtur hefjist á næsta ári en ekki jafnkröftuglega og gengið er út frá í fjárlagafrumvarpinu.

Mig langar til að eiga orðastað við hv. formann fjárlaganefndar vegna þess að nú er svo langt liðið á vinnu nefndarinnar við fjárlagafrumvarpið og við höfum fylgst með því í þinginu hvernig fjölmargir stjórnarliðar hafa horfið frá stuðningi sínum við fjárlagafrumvarpið á niðurskurðarhliðinni. Mér er það a.m.k. ekki ljóst hversu margir hyggjast standa við öll niðurskurðaráformin eftir fundina sem haldnir hafa verið víðs vegar um landið, en það er bara önnur hlið fjárlaganna.

Hin hliðin er tekjuhliðin og þar er þjóðhagsspáin alger grunnforsenda. Nú er því sem sagt spáð á næsta ári að í stað 3,2% hagvaxtar verði hagvöxturinn innan við 2% þannig að tekjuhliðin mun líka gefa eftir. Það kallar á spurningar sem lúta að heildarniðurstöðu fjárlaganna. Ætla menn í vinnu sinni í fjárlaganefnd að halda sig við þá ramma sem lagt er upp með í fjárlagafrumvarpinu? Ætli þeir að gera það þarf að finna nýjar leiðir til að auka tekjurnar og meiri niðurskurð en kynntur er til sögunnar í fjárlagafrumvarpinu nema menn hafi ákveðið nú þegar, og það væri þá ágætt að fá það fram, að gefa eftir þá ramma (Forseti hringir.) og hafa meiri halla á ríkissjóði á næsta ári en að er stefnt í fjárlagafrumvarpinu.