139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vill ræða undirbúning fjárlaga undir þessum lið. Ég er sammála því að það þarf að breyta vinnulaginu og nú sem stendur eru tveir vinnuhópar að störfum innan fjárlaganefndar, annar til að endurmeta og fjalla um breytingu á skiptingu safnliða en þar er gert ráð fyrir að viðurkenndir sjóðir og menningarráð sveitarfélaganna fari með úthlutun í framtíðinni að mestum hluta. Hinn hópurinn fjallar um framkvæmd fjárlaga, eftirlit og verklag þingsins í fjárlagaferlinu. Ég vænti mikils af þeirri vinnu og geri ráð fyrir að niðurstöður hópanna fái umræðu og afgreiðslu í fagnefndum þingsins snemma á næsta ári. Lykilatriðið við þessa vinnu alla saman er síðan að við störfum eftir ákveðnum markmiðum. Það erum við að gera núna með efnahagsáætluninni. Þar er fimm ára áætlun og það eru skýr markmið. Það skiptir máli og við þurfum að halda því áfram líka eftir kreppu.

Ég er ekki sammála því að núverandi vinnulag sé alslæmt. Eins og hv. þingmaður nefndi áðan kom hann fyrir hv. fjárlaganefnd og mælti fyrir nefndaráliti. Þar komu fram mjög fínar upplýsingar sem bæði munu nýtast þegar við metum þær breytingartillögur sem koma fljótlega inn í þingið, breytingartillögurnar við fjárlagafrumvarpið, og við mat á stefnu til framtíðar í þessum málaflokki. Vissulega er margt gott í ferlinu eins og það er. Það er ekki allt ónýtt, en við þurfum að laga það og gera það markvissara, ég er sammála því.