139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Í morgun birti Þjóðhagsstofnun, nei, Hagstofa Íslands nýja þjóðhagsspá. (KLM: Þjóðhagsstofnun er ekki lengur til.) Þjóðhagsstofnun er ekki lengur til, eins og hv. þm. Kristján L. Möller bendir réttilega á. Það eru mjög alvarlegar tölur sem koma fram í þeirri spá sem ég tel rétt að við ræðum á vettvangi þingsins. Það sem kemur þar fram er að tekjur ríkisins munu á næsta ári verða mun minni en áætlaðar voru vegna þess að hagvöxtur verður ekki eins mikill og við öll mundum vilja sjá. Þar kemur þá til kasta stefnu ríkisstjórnarinnar — en hver er hún? Jú, stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið sú að hækka skatta á heimili og fyrirtæki og ekki hvað síst á íslenskt atvinnulíf.

Við heyrðum í morgun að Írar þurfa að vinna sig út úr miklum erfiðleikum. Það stendur til að auka tekjur ríkissjóðs þar á næsta ári. Þar á að hækka skatta að einhverju leyti á einstaklinga en ekki á atvinnulífið í því landi vegna þess að Írar gera sér grein fyrir því að með því að bæta rekstrarumhverfi íslensks atvinnulífs fjölgum við störfum, aukum arðsemi í samfélaginu, minnkum atvinnuleysi og breikkum skattstofnana. Þetta einfaldlega sér núverandi ríkisstjórn ekki. Við þurfum að koma ríkisstjórninni út af þessari vitlausu braut sem hún er á. Sú uppskrift sem ríkisstjórnin hefur hannað er einfaldlega ekki hæf. Það er búið að setja allt of mikið af salti og allt of mikið af pipar í þessa uppskrift en það vantar allan sykurinn og þar með er þetta gjörsamlega óæt uppskrift sem ríkisstjórnin hefur verið að kokka í sínu eldhúsi. Þess vegna legg ég til (Gripið fram í.) að ríkisstjórnin taki sér nú tak og fari að hlusta á ábendingar utan úr samfélaginu, frá aðilum vinnumarkaðarins, og láti af þessari endalausu skattstefnu sem hún hefur staðið fyrir núna í tvö ár.

Þetta gengur einfaldlega ekki, frú forseti. — Það er eins gott að það var kona í ræðustólnum en (Forseti hringir.) mér fannst allt í einu eins og það væri karlmaður, ég biðst afsökunar. [Hlátur í þingsal.]

Frú forseti. Þessi ræða fer að verða ágæt, (Forseti hringir.) held ég, og við hljótum að geta sammælst um —

(Forseti (ÁRJ): Tíminn er liðinn.)

— að koma ríkisstjórninni af þessari braut.