139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir svör og skýringar um fjárlagavinnuna. Staðreyndin er hins vegar sú að nýja hagvaxtarspáin er ekki ákveðin vonbrigði eins og hæstv. fjármálaráðherra segir, hún er grafalvarleg tíðindi, það er það sem hún er. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að hér hafa menn tekist á um það hvernig við ætlum að vinna okkur út úr krísunni og við í Sjálfstæðisflokknum höfum gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að hafa gengið allt of langt í því að hækka skatta vegna þess að það mundi slá á möguleika atvinnulífsins til að rétta úr kútnum, og heimilanna til að byrja að nýju að stunda einkaneyslu og vinna á skulda- og greiðsluvanda sínum. Allt er þetta staðfest í þeim tölum sem við erum að fá núna.

Einkaneysla er minni en við gerðum ráð fyrir á þessu ári. Fjárfesting er einungis u.þ.b. 60% af því sem hún þarf að vera að lágmarki. Fjárfesting í þessu landi er komin niður undir þau mörk sem voru hér eftir seinni heimsstyrjöld, hefur ekki verið lægri síðan. Því er spáð að á næsta ári verði fjárfesting u.þ.b. jafnlág og hún hefur verið á líðandi ári. Hún hrundi auðvitað á árinu í fyrra. (Gripið fram í: Hverjum er það að kenna?) (Gripið fram í: Hvað á að gera?) Við eigum að fara að skapa vöxt. Við þurfum ríkisstjórn sem hefur einhverja stefnu um það hvernig við ætlum að hefja að nýju lífskjarasóknina á grundvelli verðmætasköpunar, (Gripið fram í.) eins og komið hefur fram í umræðunni. (Gripið fram í: Stjórnarandstaðan …) Það gengur ekki að menn ætli að æða áfram algerlega úrræðalausir vegna skulda- og greiðsluvanda heimila, algerlega úrræðalausir vegna stöðu fyrirtækjanna í landinu, að menn leggi stein í götu þeirra fyrirtækja sem vilja hefja hér — (Gripið fram í: … vandanum.) Menn eru algerlega fastir í því hvað gerðist hér, eins og hv. þingmenn sem grípa fram í, þeim er algerlega fyrirmunað að horfa fram á veginn, algerlega fyrirmunað annað en að vera staddir á árunum 2006, 2007 og 2008 og geta þess vegna ekki — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Gefið ræðumanni hljóð.)

— þessir ágætu þingmenn geta þess vegna ekki verið þeir sem leggja grunn að lífskjarasókn til framtíðar vegna þess að þeir eru fastir í fortíðinni. (Gripið fram í.) Það þarf lægri skatta, það þarf að fara að framleiða og skapa verðmæti. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Þar til það gerist munu slæm tíðindi berast frá Hagstofunni.