139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:33]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (ber af sér sakir):

Frú forseti. Hér féllu áðan óviðeigandi orð af hálfu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar þar sem hann dylgjaði um starfslokasamning þann sem ég gerði við menntamálaráðuneytið þegar ég lauk störfum sem skólameistari Menntaskólans á Ísafirði 2006. Sá samningur var gerður að minni ósk og hann var gerður við menntamálaráðuneytið, við þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem ég held að hv. þingmaður ætti að ræða þetta mál við þar sem hún var hið ábyrga stjórnvald varðandi þann starfslokasamning. Ég held, án þess að ég ætli að bera af henni sakir, vegna dylgjutónsins sem hefur gætt varðandi þennan starfslokasamning af hálfu sjálfstæðismanna í mörg undanfarin ár að það væri okkur öllum fyrir bestu, þinginu og Sjálfstæðisflokknum kannski ekki síst, að þessi starfslokasamningur yrði gerður opinber. Ég skora á hv. þingmann að óska eftir því að hann fái hann í hendur og taki þá þessa umræðu við flokkssystur sína, núverandi hv. þingmann og fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Ég held að það væri líka fróðlegt að bera þann starfslokasamning (Forseti hringir.) saman við marga aðra sambærilega starfslokasamninga sem gerðir hafa verið við karlmenn í opinberri þjónustu.