139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[14:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil jafnframt beina þeirri ósk minni til hæstv. forseta að kynna skýrslu þingmannanefndarinnar sérstaklega fyrir hv. þm. Merði Árnasyni sem veitir ekki af að fá smáskólun í því hvernig siðaðir menn haga sér í pontu. Ég veit ekki betur en að ég hafi farið í sund í morgun, nýþvegin í framan, er algerlega stolt af því hvernig ég haga málflutningi mínum í þinginu og þarf ekki að skammast mín fyrir það.

Hins vegar ætti hv. þm. Mörður Árnason að mínu viti, frú forseti, og hæstv. forseti kannski hjálpar honum við að læra það, að vita að menn eiga að sýna virðingu fyrir störfum hver annars. Menn eiga ekki að koma upp og ásaka menn um kjördæmapot eins og hv. þingmaður gerði undir liðnum um störf þingsins um athafnir hæstv. samgönguráðherra varðandi Landeyjahöfn. Hann kallaði það kjördæmapot. Ég skil ekki hvaðan sá málflutningur kom og ég held að sá ágæti þingmaður, sem jafnframt er formaður umhverfisnefndar, ætti að líta aðeins í eigin barm þegar hann talar um góða stjórnsýsluhætti, (Forseti hringir.) þegar hann sem formaður nefndarinnar kemur hér og skipar fyrir um það að umhverfismat skuli fara fram á einhverjum framkvæmdum. (Forseti hringir.) Ég veit ekki til þess að þetta eldgos hafi farið í umhverfismat (Forseti hringir.) og hv. þingmaður þarf kannski að horfa á þessa atburði með annars konar gleraugum.