139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:00]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra að það er full ástæða til að vera ekki að beina þróuninni að ofan í einhverja eina ákveðna átt hvað varðar umhverfisvæna orkugjafa, heldur leyfa þróuninni að gerast. Það er náttúrlega talsvert að gerast í metangasi og sérstaklega í framleiðslu á metangasi á innlendum vettvangi þannig að það er kannski svolítið nærtækt að spyrja sérstaklega út í það en afsláttur á vörugjöldum gildir náttúrlega líka um rafknúnar bifreiðar og vetnisknúnar.

Ástæðan fyrir því að ég er að velta þessu fyrir mér með stærri bílana sem geta verið metandrifnir líka er sú að náttúrufarið hér á landi er auðvitað þannig að við erum svolítið drifin í það að þurfa að kaupa stóra bíla, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég held að það ætti að vera sjónarmið sem nefndin ætti að taka til umfjöllunar að reyna að búa svo um hnútana að frumvarpið hvetji til og gefi tilefni til metanvæðingar á landsbyggðinni þar sem (Forseti hringir.) full þörf er á stórum bílum og þá þurfi kannski að hækka þakið. Það verði einnig skoðað hvernig hægt er að hvetja til víðtækara dreifikerfis á umhverfisvænum orkugjöfum. Mig langar að spyrja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra hvernig hann sér það fyrir sér.