139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér um koldíoxíðlosun bifreiða og aðgerðir til að minnka hana er alls góðs vert að því gefnu að kenningin um hitun jarðar sé rétt og við verðum víst að treysta því.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um áhrif þessa frumvarps á verð notaðra bifreiða. Ég hef grun um að margar stærri bifreiðar sem við eigum í flotanum og eyða miklu muni hrynja í verði og auka enn frekar á vandamál þeirra heimila sem hafa tekið lán til að kaupa þær bifreiðar og eru í vandræðum með afborganir.

Nú er það svo að öldrun bifreiðaflotans er þekkt, það er eiginlega sáralítið flutt inn nema til bílaleigufyrirtækja. Einstaklingar flytja varla inn bifreiðar. Spurningin er sú hvort ráðuneytinu hafi dottið í hug að lækka jafnvel vörugjald almennt til að minnka þann þröskuld sem er inn í landið við að flytja inn bifreiðar sem menga miklu minna. Það er staðreynd, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, að það hefur orðið mikil þróun. Sá gamli bílafloti sem við sitjum uppi með vegna þessa þröskuldar við innflutning er bæði óhagkvæmur og dýr í rekstri, kostar mikið viðhald og mengar óhemjumikið. Ég tel að vegna þess að svo lítið er flutt inn og ríkissjóður hefur hvort sem er engar tekjur af því, væri ráð að boða það núna að vörugjöld yrðu lækkuð t.d. um 10% á ári þangað til þau hyrfu eftir 10 ár og kostnaðurinn eða tekjufall ríkissjóðs yrði flutt yfir á bensínverðið og olíuverðið. Í staðinn fyrir að hafa einhver sérstök skilyrði fyrir metanbifreiðar mætti niðurgreiða metan svo og lífdísil sem líka hefur sömu áhrif.