139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Verð notaðra bifreiða fer töluvert mikið eftir því verði sem þær mundu kosta nýjar á götuna. Ef við ætlum að hækka skattlagningu í hæsta flokknum úr 45 upp í 65, sem þýðir að þær verða miklu dýrari í innflutningi en jafnframt óhagkvæmari í rekstri, þá er spurning hvaða áhrif það hefur á markaðinn til hækkunar eða lækkunar. Ég var einmitt að spyrja um hvort ráðuneytið hefði kannað hvaða áhrif þetta hefði á markaðinn.

Varðandi metan og bíódísil er gert ráð fyrir því hér að hafa 750 þús. kr. mörk. Þau mörk væru óþörf ef metanið yrði hreinlega niðurgreitt á móti og bíódísillinn sömuleiðis. Ef talið er að það sé svo mikið atriði að ná niður koldíoxíðmengun held ég að það yrði skynsamlegra en að vera með einhver mörk sem enginn getur rökstutt eitt eða neitt.