139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:17]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og lögum um bifreiðagjald. Ég lýsi í fyrsta lagi yfir stuðningi mínum við það og þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin hefur boðað til að minnka útblástur og mengun af bílaflota landsmanna. Það er göfugt markmið en það er spurning hvaða leiðir við viljum fara að því.

Þetta frumvarp leggur til, verði það að lögum, að vörugjöld af þeim bílum sem eyða meiru en minni bílar muni hækka en aftur á móti muni vörugjöld lækka á smábílum. Nú er það svo eins og fram hefur komið í þessari umræðu að við búum á Íslandi en ekki í Mið-Evrópu og hér eru veður válynd. Við búum í dreifbýlu landi og hæstv. fjármálaráðherra ætti að vera kunnugt að á mörgum stöðum er nauðsynlegt fyrir fólk að vera á vel búnum bílum öryggisins vegna og jafnvel vinnutengt líka til að komast á milli staða. Gallarnir við þetta frumvarp eru að vel búnir bílar, svo sem Toyota RAV4 jepplingur eða bara Subaru Legacy, sá ágæti bíll, munu hækka verulega í verði verði frumvarpið að lögum. Áhrif þess bitna væntanlega einkum á því fólki sem býr í hinum dreifðari byggðum. Það er fólk í Suðurkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi, fólk sem getur ekki notað almenningssamgöngur til að stunda vinnu heldur þarf á bifreiðum sem þessum að halda.

Nú væri ágætt að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann hafi hugmynd um eða geti veitt upplýsingar um hvort þetta atriði hafi komið upp í ráðuneytinu í þeirri frumvarpssmíð sem hann kynnir núna. Mér finnst með öllu óásættanlegt að þriðjungur landsmanna, fólk sem kýs að búa fyrir utan suðvesturhorn landsins, skuli lenda í því að tilfærslur á kostnaðaraukanum bitni sérstaklega á honum. Ákveðnar tilfærslur eru innan kerfisins og ef þetta verður samþykkt og gert að lögum er þetta sérstakur landsbyggðarskattur. Til framtíðar litið ræðum við um að verð á fjórhjóladrifsbílum, jepplingum, jeppum og fólksbílum, hækki og mun það þýða að fólk, sérstaklega á landsbyggðinni, þurfi að verja meiri fjármunum til að endurnýja bíla sína en fólk sem býr á suðvesturhorni landsins og getur notað litla sparneytna bíla til að komast á milli staða.

Mér finnst að við þurfum að huga að jafnræði í þessum málum. Ég vil endurtaka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Hafa menn ekki skoðað hvort hægt sé með einhverjum öðrum hætti að bæta þriðjungi landsmanna það upp, ef þetta frumvarp verður að lögum, að hann þurfi að greiða hærra verð í þessu formi fyrir bíla sína en efni standa nú til? Við fengum Bílgreinasambandið á fund í efnahags- og skattanefnd á dögunum og mig minnir, ég segi það nú án allrar ábyrgðar, að þar hafi komið fram að hlutfall fjórhjóladrifsbíla, sem sagt jepplinga og þar upp úr, sé um 50% á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu um 40%. Hér er verulegur munur á samsetningu bílaflotans og er það því til rökstuðnings að þetta frumvarp lendi miklu harðar og verr á íbúum landsbyggðarinnar en íbúum á suðvesturhorni landsins. Þetta mál verður tekið fyrir í efnahags- og skattanefnd í framhaldinu og ég vonast til að fulltrúar allra flokka horfi til þessara sjónarmiða. Ég er ekki að tala fyrir neinum sérhagsmunum, ég er að tala fyrir hagsmunum þriðjungs þjóðarinnar. Mér finnst ekkert réttlæti í því að þriðjungur þjóðarinnar sökum aðstæðna skuli með þessu frumvarpi neyðast til að eyða miklu hærri fjárhæð en fólk á suðvesturhorni landsins til að fjárfesta í bifreiðum.

Við skulum setja þetta í annað og víðara samhengi vegna þess að ég tel að við þurfum að horfa vítt yfir sviðið. Hver er aðstaða fólks á landsbyggðinni þegar kemur að grundvallarþáttum eins og bifreiðum? Tökum annað dæmi: Húshitun. Nú hefur ríkisstjórnin boðað að minnka eigi niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði á landsbyggðinni. Venjulegt heimili á landsbyggðinni borgar nú um 450 þús. kr. á ári í húshitun hafi það ekki aðgang að heitu vatni. Við erum að tala um 13.000 heimili þar sem 36.000 manns búa. Á svæði Orkuveitu Reykjavíkur er reikningurinn vegna húshitunar rúmar 200 þús. kr. Það er sem sagt tvisvar sinnum dýrara að greiða reikninga vegna húshitunar á landsbyggðinni en á suðvesturhorni landsins. Halda menn virkilega að menn sættu sig við það á höfuðborgarsvæðinu að heimili í Árbæ greiddi 450 þús. kr. til að hita upp hús sitt þegar heimili í Breiðholti þyrfti einungis að borga 230–240 þús. kr.? Ég held ekki. Við búum á tímum þar sem við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt. Við viljum væntanlega, sama hvar í flokki við stöndum, veita fólki jöfn tækifæri óháð búsetu. Það er ekki gert með þessu frumvarpi, það er verið að auka á misvægið.

Eðli málsins samkvæmt, þegar mikil ófærð er og erfiðar samgöngur vítt og breitt um landið, verða stærri bílar miklu dýrari í notkun fyrir utan að eyða meiru. Hvað er ríkisstjórnin að leggja til með fjárlagafrumvarpinu og frumvarpinu sem hún flutti í fyrra? Jú, hækkun á verði á eldsneyti. Það þýðir einfaldlega fyrir hinar dreifðu byggðir að reikningur heimilanna vegna kaupa á bensíni og dísilolíu hækkar stórlega á milli ára, sem er enn ein mismununin vegna þess sem ég benti á áðan að fólk á þessum svæðum hefur ekki aðgang að almenningssamgöngum eins og fólk á suðvesturhorni landsins. Hvar er þá jafnræðið, frú forseti?

Við skulum ræða annan þátt sem er flutningskostnaður sem hefur hækkað markvisst ár eftir ár. Nú er svo komið að ætli fólk austur á landi að kaupa sér ísskáp þá kostar eiginlega meira að ferja ísskápinn austur en kaupa hann. Við erum enn á leiðinni í öfuga átt, allir þessir kostnaðarliðir eru að hækka. Þeir hækka og hækka og hækka. Þeir lenda í vísitölunni og hækka þar með lánin. Við erum því endalaust að elta skottið á okkur hvað þetta varðar. Hlutfallslega koma þessar breytingar miklu verr út fyrir hinar dreifðu byggðir en höfuðborgarsvæðið. Það er þess vegna eðlileg spurning til hæstv. ráðherra hvort hann hafi á einhverju stigi málsins leitt hugann að því að nauðsynlegt væri að taka tillit til landsbyggðarinnar í því frumvarpi sem við ræðum.

Nú er hægt að fara fleiri en eina leið til að minnka útblástur. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við eða viljum gera, til að mynda önnur norræn ríki og lönd víðs vegar í Evrópu, hafa þau lönd farið þá leið að skattleggja dísilolíu minna en bensín. Í fyrsta lagi er það gert vegna þess að dísilknúnir bílar eyða vanalega minna en bensínknúnir og síðan er dísilolían umhverfisvænni en bensínið. Það er tvöfaldur ávinningur sem því fylgir. Það væri hægt að minnka útblástur með því að breyta skatthlutföllunum þannig að dísilolían yrði hagkvæmari í innkaupum en bensínið. Nú er þetta að jafnaði á pari. Ef menn færu út í þá breytingu mundi kaupmynstur landans breytast og menn mundu frekar kaupa dísilknúna bíla en bensínknúna. Vægi slíkrar breytingar mundi ekki mismuna eins landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Önnur spurning mín til hæstv. ráðherra er því hvort menn hafi skoðað að fara þá leið.

Í umræðum í nefndinni var sumum nefndarmönnum gjarnt að minnast á að nú væri dálítið mikið af Range Roverum sem keyrðu um götur höfuðborgarsvæðisins og hvort það væri stefna okkar sem töluðum fyrir þessum sjónarmiðum að ekki mætti hækka gjöld á þá. Við erum ekki að tala um að fólk á landsbyggðinni aki um á Range Roverum. Þetta eru ekki útrásarvíkingar. Það fólk sem býr í hinum dreifðu byggðum eru bændur sem stunda landbúnað og þeim dugar einfaldlega ekki að vera á litlum Toyota Yaris-bílum nema rétt yfir sumarmánuðina. Reyndar efast ég orðið um að þeir smábílar henti vel til þess að keyra dreifbýlisvegina. Viðhald á þeim vegum (SKK: Ekki Steingrímsfjarðarheiði.) er orðið svo lítið að þeir eru eins og þvottabretti og þótt reynt sé að gera þá að einhverju leyti upp á vorin þarf ekki nema einn eða tvo rigningardaga til að þeir verði að sömu þvottabrettunum aftur. Menn keyra ekki á sparneytnum smábíl um slíka vegi.

Í fyrirspurn minni til hæstv. samgönguráðherra í gær, þegar ég innti hann eftir þjónustu Vegagerðarinnar yfir vetrarmánuði er snertir snjómokstur, kom fram að ekki ætti að skera enn frekar þar niður, sem er fagnaðarefni, en hins vegar er 7,7% aðhaldskrafa á þeim lið sem er viðhald á vegum yfir sumar sem vetur. Þar af leiðandi verður enn harkalegri niðurskurður á viðhaldi vega, t.d. á sumrin, og er nú ástandið erfitt nú þegar. Ég sé það einfaldlega ekki ganga upp, frú forseti, að bændur til sveita og fólk í dreifbýli keyri um sveitir landsins í framtíðinni á þessum pínulitlu bílum eins og ástand vega er. Menn þurfa einfaldlega að vera á vel búnum og öruggum bílum, svo ekki sé talað um öryggisþáttinn í því máli, að stærri vel búnir bílar eru öruggari en smábílar. Það gerist víst enn og mun gerast um alla framtíð að slys verða, kannski sérstaklega þegar ástand og viðhald þjóðveganna er orðið eins slæmt og raun ber vitni, og er þá betra fyrir fólk að vera frekar á traustari bílum en smærri.

Heilt yfir, frú forseti, vil ég lýsa yfir stuðningi við megintilganginn með frumvarpinu, að minnka útblástur, og við í Framsóknarflokknum tökum heilshugar undir það. Ég get hins vegar ekki fallist á að auka á mismun í samfélaginu er varðar búsetuskilyrði fólks ofan á allt annað sem ég hef nefnt hér að framan. Það er einfaldlega ekki mönnum bjóðandi. Hæstv. fjármálaráðherra ætti að hafa ágætan skilning á aðstæðum til sveita og þeim kjördæmum sem hafa engan snertiflöt við suðvesturhorn landsins, þ.e. höfuðborgarsvæðið. Fólk þarf einfaldlega að vera á betur útbúnum bílum. Ef við setjum það í samhengi við harkalegan niðurskurð í velferðarþjónustunni og heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni hefði maður haldið að það væri brýnt fyrir fólk sem þar býr að hafa aðgengi að vel búnum bílum, þ.e. ef mönnum er alvara með að skera þá þjónustu svo mikið niður.

Á heildina litið hvet ég hæstv. ráðherra til að hugsa sinn gang þegar kemur að þessu frumvarpi. Við skulum finna leiðir til þess að minnka útblástur og gera landið umhverfisvænna. En við getum ekki lokað augunum fyrir því að við búum í dreifbýlu landi þar sem veður eru válynd og skorið hefur verið niður í snjómokstri ár eftir ár. Í því ljósi verður fólk einfaldlega að geta haft aðgengi að vel búnum bílum. Með því frumvarpi sem hér er lagt fram er ljóst að til framtíðar litið mun verð á slíkum bifreiðum stórhækka. (TÞH: Heyr, heyr.) Það er ekki ásættanlegt. Ég heyri hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson kallar „heyr, heyr“ sem er ný hefð í þinginu, þegar mönnum líkar við ræður þingmanna eru þeir farnir að heyrast um salinn. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að hafa það eftir sem hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sagði.

En án allra gamanmála ræðum við mjög alvarlegt frumvarp. Við þurfum að svara stórum spurningum. Eins og hæstv. ráðherra heyrir í ræðu minni erum við tilbúin til samráðs um að minnka útblástur, við erum ekki sammála um leiðir, en ég leyfi mér að binda vonir við (Forseti hringir.) að á vettvangi nefndarinnar finnum við ásættanlega lausn. Því miður er þetta ekki lausnin.