139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:35]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki klára að svara spurningu minni hversu vel hann hefði skoðað það þegar hann samdi frumvarpið í ráðuneytinu að breyta skattlagningunni á milli dísilolíu og bensínlítra. Í öðru lagi vil ég leiðrétta hæstv. ráðherra þegar kemur að hækkunum á ákveðnum bílum. Við getum tekið jeppling eins og Toyota Rav4, hann mun samkvæmt þessu frumvarpi hækka um 130 þúsund. Honda CRV sem er líka jepplingur mun hækka um 288 þúsund. Subaru Legacy mun hækka um 175 þúsund. Þetta eru engir risabílar og eru nauðsynlegir í mörgum byggðarlögum. Ég man að á dögunum hríðaði í fjóra eða fimm daga á Akureyri og það var þó nokkur ófærð innanbæjar. Ég vil fullyrða að hefðu Akureyringar verið á smábílum hefði enginn bíll verið á ferðinni í bænum þessa þrjá eða fjóra daga. Hæstv. ráðherra á að þekkja vel til aðstæðna í þessum byggðarlögum. Það er óumdeilt að verð á nauðsynlegum bílum, vel búnum, mun hækka verði þetta að veruleika.

Ég saknaði þess hjá hæstv. ráðherra þegar ég bar saman til að mynda raforkuverðið þar sem menn hafa lækkað niðurgreiðslur til kaldra svæða. Raforkuverðsreikningar á 13.000 heimilum hafa hækkað meira en raforkuverð á öðrum stöðum. Þar eykst mismunurinn meira. Það er líka búið að hækka bensín og olíuverð. Á landsbyggðinni keyra menn á bílum sem eyða hlutfallslega meira bensíni vegna ófærðar og eru á traustari bílum. Þar er enn verið að auka ójöfnuðinn. Verða menn ekki að skoða heildarsamhengið þegar kemur að þessum málaflokki og minnka misvægi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins?