139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Vegna þess síðasta sem hæstv. ráðherra vék að varðandi tilskipanir Evrópusambandsins þá ætti hæstv. ráðherra að vera kunnugt um það þar sem hann studdi aðildarumsókn að Evrópusambandinu í þeim efnum.

Ég vil minna hæstv. ráðherra á að niðurgreiðslur vegna húshitunar á köldum svæðum, ef þær hefðu fylgt verðlagi frá árinu 2005 til dagsins í dag, ættu að vera einn og hálfur milljarður. Í tíð norrænu velferðarstjórnarinnar er upphæðin um 970 milljónir. Hæstv. ráðherra getur ekki kennt einhverjum tilskipunum um að raforkuverð á þessum svæðum hafi hækkað svo mikið sem raun ber vitni, heldur er það stefnumótun og áhersla ríkisstjórnarinnar þegar kemur að reikningum 36.000 Íslendinga eða 13.000 heimila. Tölurnar tala sínu máli.

Ég vil að lokum segja það, ég ætla ekkert að karpa, að ég hef reynt í ræðu minni að sjá heildarsamhengið hvað landsbyggðin er að borga í flutningsgjöld, hvað hún er að borga í olíukostnað umfram þéttbýlissvæðið, hvað við borgum í hærri raforkukostnað og núna hærri kostnað vegna bílaflotans, því við erum að tala um horfur til framtíðar. Einhvern tímann mun reikningurinn skella á landsbyggðinni hvað þessi mál varðar.

Ég vil að lokum, af því að fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra er hér á forsetastóli, ítreka það að við framsóknarmenn erum sammála um að við eigum að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. (Fjmrh.: Heyr, heyr.) Heyr, heyr, segir núna hæstv. fjármálaráðherra. Ég man aldrei eftir því að hann hafi sett svoleiðis slagorð við mínar ræður, en einhvern tímann er allt fyrst. Við styðjum það svo sannarlega, en það er spurning hvaða leiðir við eigum að fara að því markmiði. Við erum ekki endilega sammála um það, en við verðum að sjá til á vettvangi nefndarinnar hvort við náum samstöðu í þeim efnum.