139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum breytingar á lögum um vörugjöld af ökutækjum. Sú leið sem er valin hér til að reyna að hemja koltvísýringslosun er að leggja vörugjöld á bifreiðar. Það er reyndar til betri leið ef menn vilja ná til þeirra bíla sem eyða mest, reyna að minnka losun þeirra sem eru jafnframt þyngstu bílarnir o.s.frv., og það er með því einfaldlega að setja þetta inn í bensínverðið. Þá munu þeir sem eyða meira borga meira fyrir losunina. Það er útfærsla. Þetta er grófari aðferð til að nálgast þetta. Ég hefði haldið að hitt væri mun einfaldara.

En hvað um það. Eitt sem ég tel líka nokkurn galla á þessu er að hér er miðað við einhvers konar meðaltalslosun og þá er tekin einhver tala sem er 165 grömm af CO2 á kílómetra. Það er meðaltalslosun. Vörugjöldin á þeim bílum sem losa minna en það munu lækka. Hjá þeim sem losa meira munu vörugjöldin hækka. Við sjáum t.d. núna miðað við þessa tölu að á Avensis, sem ég held að sé Toyota, lækka vörugjöldin um 117 þús. kr., en hækka um 130 þús. kr. á RAV4 sem er örlítið stærri bíll, líkari jeppa og losar 72 grömmum meira á kílómetra. Það sem ég hef aðeins verið að spá í er að meðaltalslosunin, sem auðvitað mun minnka núna mjög hratt eftir því sem bílaflotinn tekur við nýju upplýsingunum sem berast í verðinu, lækkar og stöðugt ódýrari og veigaminni gerðir verða fyrir neðan þessi meðaltalsmörk. Annars getur ætlunin verið að þessi meðaltalslosun verði föst tala, 165 grömm, og þá verða væntanlega innan ekkert allt of margra ára allir bílar innan þessara marka vegna þess að það er mjög mikil þróun í gerð bílvéla og allar þjóðir eru að reyna að minnka CO2-losun.

Í frumvarpinu koma fram merkilegar upplýsingar. Þar er metið að losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum árið 2010 sé í kringum 800 þús. tonn, í kringum 500 þús. tonn árið 1990. Árið 2007, hið minnisstæða ár 2007, var losunin 950 þús. þannig að hún hefur minnkað um 150 þús. tonn á þremur árum. Það er vel.

Það er líka hægt að setja þetta í annað samhengi. CO2-mengun er ekki staðbundið vandamál, heldur alheimsvandamál. Það hefur að gera með það að sólargeislar festast inni í gufuhvolfinu sem hitar þá upp og hefur þau óæskilegu áhrif sem við köllum gróðurhúsaáhrif, ef ég þekki þessi vísindi rétt, en ég er ekki vísindamaður á þessu sviði þó að ég það sé á einhverju öðru. Berum þetta saman við hvernig væri hægt að ná miklu meiri árangri. Losunin núna er 800 þús. tonn. Í þessu samhengi er gaman að segja sögu af álveri sem átti að byggja á Bakka (Gripið fram í.) þar sem Alcoa var búið að ákveða að byggja. Þetta álver átti að losa í kringum 500 þús. tonn af CO2. Umhverfisráðherra þess tíma, Þórunn Sveinbjarnardóttir, setti þetta álver í sameiginlegt umhverfismat með Þeistareykjum þar sem orkuöflunarhluti verkefnisins er og það leiddi til þess að verkefnið tafðist og umhverfismatið verður ekki tilbúið, ekki á morgun heldur hinn, átti reyndar að tefjast um viku en nú eru að verða komin tvö og hálft ár. Í stað þess að reisa þetta álver á Bakka ákvað Alcoa að reisa álverið í Sádi-Arabíu. Það álver er knúið raforku sem er framleidd með gasbrennslu sem spúir út í loftið í kringum 500 þús. tonnum á ári af CO2. Þessi ákvörðun umhverfisráðherra gerði það fyrir umhverfismál í heiminum að CO2-losun jókst um 500 þús. tonn út af þessari ákvörðun. Ábyggilega meinti hún vel, en hugsaði kannski bara málið ekki alveg til enda.

Það sem ég vil segja er að við náum miklu meiri árangri í losun gróðurhúsalofttegunda með því að reisa álver á Íslandi en að baksa við að leggja vörugjöld á og annað slíkt. Við sjáum að eitt álver byggt á Íslandi mundi minnka losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum um í kringum 5/8 af því sem heildarbílaflotinn mengar á Íslandi. Þetta er svona ef maður hugsar hlutina í samhengi. Það er ágætt að fara upp á torfþakið og skima út í heiminn þegar maður tekur ákvarðanir. Það er eitt.

Af því að hv. þm. Þór Saari talaði um undanþágur — stafrófið dugar varla til að telja upp allar undanþágurnar — er ein sem ég sakna, sú að fatlaðir einstaklingar skuli ekki fá meira ráðrúm en aðrir. Fyrir fatlað fólk, t.d. það sem er lamað fyrir neðan mitti, er náttúrlega ljóst að þessir litlu bílar eru mun verri en stærri bílar. Ég er ekki að segja að það eigi að fara um á Hummer en kannski RAV4 eða jafnvel litlum Land Cruiser. Fyrir fólk sem er í hjólastól og þarf að athafna sig er sanngirnismál að það komist í stærri bíla án þess að auka við kostnað eins og hér er gert ráð fyrir. Þá gæti einhver sagt: Er ekki bara best að fatlað fólk fari í lyftubíla sem eru sérhannaðir fyrir það? En þeir eru miklum mun dýrari og það mundi koma fram í því að ríkið þyrfti að veita fötluðum hærri styrki, bílastyrki og annað slíkt. Það er eins með þetta og að fara upp á þakið á torfkofanum, ef maður hugsar aðeins lengra er oft alveg undravert hvað maður getur verið sniðugur.

Ég ætlaði svo sem ekki að segja mikið meira um þetta en hvet flutningsmann til að huga að því að fljótlegasta leiðin til að ná niður CO2-mengun í heiminum sem við Íslendingar getum lagt til er að reisa álver og ég hvet hann eindregið til að fara út í að reyna að koma af stað álveri, klára það sem er í Helguvík og komast af stað því sem er á Bakka. (PHB: Það skapar líka atvinnu.) (Gripið fram í: … í þessu samhengi.)