139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[16:09]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftirspurn eftir áli eykst um u.þ.b. 6% á ári. Til að fullnægja þeirri þörf þarf að byggja eitt og hálft til tvö álver á ári. Ef við getum með umhverfisvænum hætti byggt tvö álver í viðbót, þ.e. í Helguvík og á Bakka, munum við fullnægja þeirri þörf heimsins í a.m.k. eitt ár. Milljón tonna minnkun á CO2 skiptir máli í þessu samhengi. Þingmaðurinn má alls ekki gera lítið úr því að milljón tonn af CO2 er mjög mikið og skiptir máli í þessu samhengi öllu saman. Það eru í kringum 170 álver í heiminum. Eins og ég segi eru byggð eitt og hálft til tvö ný álver á ári þannig að það er ekki alveg rétt hjá þingmanninum að tugir álvera séu í undirbúningi, það er bara alls ekki svo. Eins og ég segi eru byggð eitt og hálft til tvö álver á ári.

Samhengi hlutanna verður að vera algjörlega á hreinu. Þau álver sem eru t.d. knúin í Kína eru knúin á mun óhagkvæmari hátt hvað varðar CO2-útlosun en álver á Íslandi. Fram hjá því getur þingmaðurinn ekki horft. Það verður að horfa á hlutina í þessu stóra samhengi og það má ekki líta á það þannig að það sé bara verið að lengja umræðuna þegar svona skoðanir koma fram.