139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[16:11]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nei, ég held að þessi umræða sé ákaflega merkileg og þurfi að finna til hennar eitthvert rúm á þinginu. Að vísu er hún líklega óþörf eftir nokkur ár því að við erum að ganga inn í blessað Evrópusambandið. Jafnvel þó að það verði seinna en mig langar til erum við þegar á leið inn í viðskiptakerfi þess með kolefnislosunarheimildir einmitt hvað álverin varðar þannig að þá verða álverin í Evrópu, Evrópusambandinu og fylgiríkjum þess. Það verður sumsé einn pottur þannig að það fer út úr íslenska kerfinu og þá þarf ekkert að ræða þetta nema hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson getur gert það á alþjóðavettvangi.

Á hinn bóginn er það auðvitað aðdáunarverð fórnarafstaða af hálfu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar, og Péturs Blöndals sem líka hefur rætt þetta svona, að bjóða fram íslensk verðmæti til að bæta þótt í litlu sé stöðuna í heiminum, hina afdrifaríku stöðu sem við erum í hér í byrjun 21. aldar, mannkynið allt, 7 milljarðar eða hvað það var síðast þegar við gáðum.

Þá er spurningin um önnur verðmæti á Íslandi sem ég vil gjarnan að þingmaðurinn svari. Við erum ekki nema rétt um 330 þús. og okkur fer fækkandi vegna efnahagsástands sem þingmaðurinn átti þátt í að búa til, en landið er hins vegar stórt og mundi rúma alveg örugglega 3, 4, 5 milljónir manna, jafnvel fleiri ef við tökum indverskan kvarða eða kínverskan. Er þá ekki rétt og skynsamlegt framhald á þessari nýju fórnarstefnu af hálfu Íslendinga að bjóða hingað til landsins og fjölga hér ríkisborgurum upp í t.d. 3,3 milljónir og bæta þar með þann vanda sem (Forseti hringir.) mannfjölgunin er víða á svæðum í heiminum?