139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[16:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér hefur spunnist mikil og að mínu mati málefnaleg umræða um þetta frumvarp til laga um breyting á vörugjöldum á ökutækjum og lögum um bifreiðagjald sem mun síðar verða rætt sem gengur út á það að reyna að minnka koldíoxíðlosun bifreiðaumferðar á Íslandi.

Þetta er mikil kerfisbreyting vegna þess að koldíoxíðmengunin er eiginlega skattlögð þrefalt. Hún er skattlögð sérstaklega þegar bílar eru fluttir inn. Þá njóta þær bifreiðar velvildar sem menga lítið, síðan er það skattlagt með bifreiðagjöldunum á hverju ári og svo er það skattlagt í bensíninu og olíunni. Það hefur mikil áhrif á verð bíla og líka á landsbyggðina. Ég reikna með því að verð á þeim bifreiðum sem menga minnst muni lækka mikið eða sem nemur skattlagningunni um það leyti sem frumvarpið kemur fram. Hins vegar mun verð á dýrari bifreiðum jafnvel hækka en þó er spurning hvort menn séu tilbúnir að kaupa slíka bensínháka eða dísilháka eftir að búið er að hækka olíuverðið og bensínið sem sýnt er.

Mengunin er mikið meiri en bara koldíoxíðmengun. Menn tala bara um koldíoxíðmengun og hv. þm. Þór Saari talaði um að fara inn gult ský í Reykjavík. Það er ekki koldíoxíðmengun. Koldíoxíðmengun er í rauninni ekki mengun vegna þess að allar plöntur taka til sín koldíoxíð og af því að þegar við öndum búum við til koldíoxíð. Það er ákveðin hringrás á koldíoxíði í náttúrunni en það er ekki mengun. Það veldur hins vegar hitnun jarðar, að talið er, og þar af leiðandi berjast menn gegn því. En við erum með miklu fleira. Við erum með kolmonoxíð sem er baneitrað, síðan erum við með níturoxíð og níturdíoxíð og síðan kannski sem verra er, brennisteinsoxíð og brennisteinsvetni, svo erum við með rykmengun. Allt þetta hverfur ekki við þessa breytingu eina sér, menn þurfa að hafa það í huga.

Hér varð smáumræða um Kárahnjúkavirkjun eða um virkjanir yfirleitt. Ég fékk einu sinni svar frá hæstv. þáverandi umhverfisráðherra um að Kárahnjúkavirkjun hefði sparað mannkyninu sem svarar sexfaldri mengun af allri umferð á Íslandi. Ef það ál sem Kárahnjúkavirkjun framleiðir á Reyðarfirði hefði verið framleitt í Kína með brennslu kola, olíu eða gass til að framleiða rafmagnið hefði það svarað til sexfaldrar mengunar íslenskrar bílaumferðar og það kemur þessu máli við, frú forseti, vegna þess að við ræðum frumvarp sem er flutt til að vinna gegn koldíoxíðmengun — já, koldíoxíðmengun er það víst kallað þó að það sé ekki mengun, sem getur valdið hitnun jarðar samkvæmt þeim kenningum sem eru í gangi. Það eru margar undanþágur á frumvarpinu sem hafa verið til staðar og þær eru alltaf slæmar.

Vandi okkar í dag er að við erum með mjög aldraðan bílaflota. Það hefur eiginlega ekkert verið flutt inn til einkanota af bifreiðum í tvö til þrjú ár eða síðan nokkru fyrir hrun. Hinn aldraði bílafloti er með gamaldags vélar og tæki og hann kostar viðhald. Vélarnar eru rangt stilltar o.s.frv. þannig að hann mengar mikið meira en nýlegur floti mundi gera. Ef menn ætluðu sér virkilega að vinna gegn koldíoxíðmengun ætti í rauninni að minnka viðnám eða auka flæði bifreiða inn í landið almennt vegna þess að yfirleitt eru nýrri bifreiðar betri í þessu skyni. Mér finnst að menn eigi að skoða það alveg sérstaklega núna þegar eiginlega ekkert er flutt inn og ríkissjóður hefur næstum engar tekjur af vörugjöldum, að byrja á því að lækka öll vörugjöld á bifreiðar um 20% í staðinn fyrir þessar tilfæringar og tilkynna jafnframt að það verði áframhaldandi lækkun, 20 eða 10% á ári, þannig að öll vörugjöld á bifreiðar verði horfin eftir ákveðinn árafjölda. Á sama tíma yrði tekjuþörf ríkissjóðs vegna þessarar lækkunar, sem yrði engin á næsta ári vegna þess að það er enginn innflutningur hvort sem er, bætt við olíugjaldið eða bensíngjaldið þannig að menn vissu fyrir fram að kostnaðurinn vegna bensíns og olíu mundi aukast enn meira. Þar af leiðandi mundi almenningur, af því að hann er svo skynsamur, kaupa sér bifreiðar frekar sem menga minna. Það þarf nefnilega ekki að skattleggja koldíoxíðatómið mörgum sinnum.

Ég vil að menn skattleggi kolefnisatómið sérstaklega, það verði bara horft á það. Það eru færri kolefnisatóm í hverjum lítra af dísli en í bensíni og því verði það skattlagt minna. Ég vil leggja bifreiðagjaldið algerlega af. Ég sé engan tilgang í því af hverju menn borga skatt aftur fyrir notkunina bara af því að þeir eiga bíl. Sumir eiga bara bíl og keyra hann ekki neitt og mér finnst ósanngjarnt að þeir borgi eitthvert gjald fyrir það frekar en fyrir að eiga mublur eða eitthvað annað. Það getur einhver viljað eiga flottan jeppa fyrir utan hjá sér til að geta sýnt vinum og vandamönnum og keyra hann ekki neitt af því að hann eyðir svo miklu. Svo kaupir hann einhvern ódýran bíl til þess að keyra. Það er ýmislegt í gangi.

Mér finnst að við vinnslu frumvarpsins eigi að skoða þessi mál mjög nákvæmlega þar sem það eru orðin allt að því viðurkennd sannindi að jörðin sé að hitna og sú hitnun stafi af koldíoxíðmenguninni eða -aukningunni. Mér finnst sjálfsagt að skoða þetta nákvæmlega og mundi vilja gera það í nefndinni. En ég skora jafnframt á hæstv. fjármálaráðherra að skoða það að byggja tvö eða þrjú álver til að skapa atvinnu og annað og fórna okkur Íslendingum fyrir mannkynið, eins og hér kom fram áðan. En auðvitað minnkar álver byggt á Íslandi þörf á álverum byggðum í Kína nema menn ætli að fara að banna notkun á áli. En það er allt önnur ella og menn ættu kannski að skoða það nákvæmlega hvort eigi að minnka notkun á áli í heiminum. Það vill svo til að ál er þó nokkuð umhverfisvænn málmur og léttir t.d. bifreiðar, minnkar notkun þeirra á orku og gerir mögulegt að fljúga um loftin blá í flugvélum. Svo er ál notað í umbúðir utan um karamellur og slíkt þannig að öll notum við ál.