139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[17:37]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er talið að hér séu ónýttar eitthvað í kringum 30 teravattstundir, 30 þúsund megavött. Ég er ekki talsmaður þess að við eyðum því öllu til álvera en ég hefði viljað sjá álver í Helguvík og ég hefði viljað sjá álver á Bakka. Ef þau fara í svipaða stærð og Fjarðarálsverkefnið, yrðu sem sagt stór álver, eru það í kringum 12 teravattstundir og þá er slatti eftir.

Það er hárrétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að það er staðganga í þessu. Þegar við hugsum um framlag til orkuframleiðslu í heiminum gætum við alveg notað þessa grænu orku í að framleiða eitthvað annað. Í röksemdafærslunni gleymir hæstv. fjármálaráðherra því sem ég talaði um í ræðu minni, að hér hefði verið komið álver á Bakka ef þáverandi hæstv. umhverfisráðherra hefði ekki stöðvað framkvæmd með því að setja hana í tvöfalt umhverfismat. Við erum búin að missa a.m.k. tvö ár sem eru milljón tonn af CO 2 . Það er engin staðganga í því. Röksemdafærslan sem ég bar fram stenst fullkomlega.

Að lokum langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi komið og skoðað, t.d. álverið á Reyðarfirði og séð hvaða starfsemi fer þar fram, hvernig hlutirnir virka þar allir saman og hversu gott vinnuumhverfið er fyrir fólk, hversu há meðallaun eru borguð og annað slíkt. (Forseti hringir.) Hefur ráðherra kynnt sér þetta og farið í álverið og skoðað það?