139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[17:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held í fyrsta lagi að það sé engin leið að halda því fram, eins og hv. þingmaður gerir, að það væri risið álver á Bakka ef ekki hefði verið úrskurðað sameiginlegt umhverfismat. (TÞH: Þeir segja það hjá Alcoa.) Það er engin leið að halda slíku fram. Ég held að menn ættu að hugleiða hvernig hefur gengið suður með sjó, hversu gáfulegt það er eða hversu traust það er að leggja upp upp á von og óvon að lítt könnuð eða ókönnuð jarðhitasvæði gefi það sem menn giska fyrir fram á að þau gætu mögulega gert og að menn ættu að læra af reynslunni í þeim efnum.

Ég fagna því hvernig menn eru farnir að ræða málin og nálgast þau, t.d. af hálfu Landsvirkjunar, sem er komin inn á það sem okkar bestu jarðvísindamenn og sérfræðingar á sviði nýtingar háhita hafa verið að predika undanfarin ár, að eina skynsamlega nálgunin er að taka slík svæði inn í áföngum, læra á þau og færa út þekkinguna eftir því sem vinnslu miðar og boranir gefa meiri upplýsingar.

Muna menn hvernig gekk með Kröflu í árdaga og hvernig hefur gengið á mörgum öðrum svæðum þar sem menn halda að sé hægt að fara inn og gera þetta með látum? Það er hægara sagt en gert. Sama gildir um djúpborunina sem hv. þingmaður nefndi og við erum báðir greinilega miklir áhugamenn um. Hún er spennandi en það er öllum ljóst sem eitthvað setja sig inn í málin eða þekkja til þeirra að það er sýnd veiði en ekki gefin hvernig það gengur. Það eru mörg óleyst tæknileg vandamál sem þar er við að glíma eins og t.d. þegar menn eru komnir niður í bráðna kviku allt í einu. Því ætluðu menn ekki að ná upp úr holunni heldur gríðarlegum hita undir þrýstingi. Það er lítið að gera með bráðna hraunkviku, (Gripið fram í.) hún verður ekki notuð sem rafmagn.

Varðandi það hvort ég hafi komið í álverið á Reyðarfirði. Ég hef ekki komið inn í það eftir að það var komið í fulla framleiðslu. Ég kom þar oft á byggingartíma og fylgdist með því. (Forseti hringir.) Þar var myndarlega að málum staðið. (Forseti hringir.) Ég kom þangað síðast til að skoða staðinn um það bil sem framleiðslan var að hefjast.