139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[17:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á erfitt með að skilja þessa álversumræðu. Það er gjarnan talað eins og þetta séu hin mestu skrímsli. Þetta eru vinnustaðir þar sem aðbúnaður er góður og borguð há laun. Í Reyðaráli eru, að mér skilst, 40% starfsmanna konur. Það er merkilegt að hæstv. fjármálaráðherra, þingmaður kjördæmisins, hafi ekki komið eftir að starfið komst í gang, það verður að segjast.

Það er ekki það sem ég ætlaði að spyrja um. Hæstv. ráðherra sagði áðan að það yrði ekki bæði haldið og sleppt. Ef það er þannig, hæstv. ráðherra, segi ég frekar „sleppt“. Það er ekki hægt að ganga lengra í því að ýta undir mismunun á milli landsbyggðar og þéttbýlisins. Við skulum þá hreinlega og ég óska eftir því að hæstv. ráðherra láti gera athugun á því hvernig bílaflotanum er skipt miðað við íbúafjölda, höfðatölu og þess háttar. Þá getum við fengið þetta á hreint.

Það er með ólíkindum að halda því fram að það verði verðmæti í gömlu bílunum úti á landi og gefa um leið í skyn að þar þurfi menn ekki að endurnýja bíla sína. Það er vitanlega ekki þannig. Það er mismunur á aðstæðum og það verður að taka tillit til þess.

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningu minni áðan varðandi lögregluna. Af hverju er hún ekki á undanþágulistanum, ef ég hef skilið þetta rétt í frumvarpinu, og er það vísvitandi eða gleymdist það? Hverjar eru ástæðurnar fyrir því að lögreglan er ekki í undanþáguupptalningunni sem þarna er?

Í seinna andsvari mínu mun ég spyrja hann út í flotann.