139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[17:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði einnig hæstv. ráðherra um fatlaða, hvort standi til, ég nefndi það alla vega í ræðu minni en ég man ekki hvort ég spurði hæstv. ráðherra að því, að fatlaðir sem gjarnan þurfa að nota þessar bifreiðar fái einhverjar undanþágur umfram það sem þarna kemur fram. Ég held að það sé mikilvægt að fá svör við því. Við vitum að eldri borgarar sækja einnig í bifreiðar sem þarna eru nefndar sem munu hækka í verði.

Varðandi flotann, það er mjög áhugavert. Ég er sammála hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að við reynum að gera fiskiskipaflotann umhverfisvænni, þ.e. að orkugjafar í fiskiskipaflotanum verði umhverfisvænni. Ég skil hins vegar ekki hvernig í ósköpunum hæstv. ráðherra ætlar að ná því fram meðan hann er með sjávarútveginn í algjöru uppnámi og óvissu út af stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim málum. Það er mikilvægt að ríkið geti unnið með sjávarútveginum, t.d. að því að minnka útblástur frá fiskiskipum og reyna að ná fram betri nýtingu um boð og ýmislegt þess háttar.

Ég minnist þess að hafa verið upplýstur um það einhvern tíma að frystitogari gæti keyrt vélar sínar í þrjá til fjóra daga í hverjum túr af afskurði eða slíku sem annars er ekki nýttur. Ef það væri hvati fyrir sjávarútveginn að nýta slíkt, breyta skipum sínum, fara í fjárfestingar, væri áhugavert að stuðla að því. Frú forseti, eins og ríkisstjórnin hefur haldið á málum gagnvart sjávarútveginum er enginn hvati til fjárfestinga eða slíkra verkefna meðan óvissan er slík. Mig langar í lokin að hvetja hæstv. ráðherra til að eyða þessari óvissu.