139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[18:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ákveðin efnisleg atriði sem og líka, verður að segjast, hvernig málið er vaxið og hvernig það bar að og sú staðreynd að framkvæmdir voru hafnar áður en fjárfestingarsamningurinn var kláraður og áður en ESA fékk hann til skoðunar. Það eru því ýmis mál sem tengjast bæði efnisinnihaldinu og kringumstæðum í málinu sem munu verða til rannsóknar. Ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Nú þurfum við að sjálfsögðu að taka til okkar varna eða gera það sem við getum til að sannfæra ESA um að þetta fái allt staðist. Í það fer reyndar heilmikill tími og orka. Það eru tugir mála opnir milli Íslands og ESA og mjög mörg mál á sviði ríkisstyrkja vegna þeirra hluta sem hér hafa gerst og gengið yfir. Það er dálítill handleggur að sinna því öllu, satt best að segja, og fer í það mikill tími og mikil orka en reynt er að gera hvað hægt er.

Varðandi lausn á þessu með innflutning netþjónanna þá höfum við skoðað heilmikið í samhengi hvernig því öllu er fyrir komið í ýmsum nálægum löndum, t.d. Finnlandi og Írlandi. Vandinn er sá að málið snýr ekki eins að þeim og okkur sem ríki utan Evrópusambandsins, eins og hv. þingmaður veit. Við erum ekki innan tollmúra Evrópusambandsins og það gilda ekki alveg sömu reglur um færslu eða sölu á þjónustu og flutning á búnaði milli landa innan Evrópusambandsins og gilda milli þess og landa utan þess. (REÁ: En EES?) Það er auðvitað veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. EES tekur ekki á öllum þeim þáttum málsins vegna þess að skattaleg og tollaleg staða Íslands er önnur en gildir um innbyrðis samskipti Evrópusambandsríkja.