139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[18:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Senn lýkur þessari lotu, ætli ég sé ekki kominn að því að mæla fyrir síðasta frumvarpinu í þessum pakka sem hefur tekið nokkuð af tíma þingsins, bæði á fimmtudaginn var og aftur í dag. Þetta er frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, varðar það sem nefnt er kyrrsetning eigna.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði heimild til kyrrsetningar vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatt og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Heimild til kyrrsetningar var sett í lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, með lögum nr. 23/2010 og var talið að sú heimild tæki til allra framangreindra laga. Hæstiréttur kvað hins vegar upp dóm 21. júní 2010 þar sem ekki var fallist á að almenn tilvísun virðisaukaskattslaga til tekjuskattslaga dygði til að veita lagaheimild til kyrrsetningar vegna ætlaðra brota gegn virðisaukaskattslögum.

Frumvarpi þessu er því ætlað að veita skattrannsóknarstjóra skýra heimild til að krefjast kyrrsetningar á eignum aðila vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Orðalag frumvarpsins er eins og í gildandi lögum nr. 23/2010 þar sem heimild var veitt til kyrrsetningar vegna væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar í málum sem sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Mál sem sæta rannsókn vegna gruns um brot gegn skattalögum taka eðli máls samkvæmt mun lengri tíma en venjulegar skattákvarðanir og því má ætla að aukin hætta geti verið á undanskoti eigna í slíkum tilvikum. Sérstaklega er mikilvægt að tryggja skil virðisaukaskatts og staðgreiðslu í ríkissjóð þar sem um er að ræða vörsluskatta, þ.e. skattaðili hefur undir höndum fjármuni sem tilheyra ríkissjóði og varðar við almenn hegningarlög að skila ekki.

Ákvæðið tekur mið af 88. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, þar sem lögreglu er fengin heimild til kyrrsetningar eigna en lagt er til að almennar reglur um kyrrsetningu fjármuna gildi um kyrrsetningu samkvæmt greininni eftir því sem við á. Nærtækt er að heimild til kyrrsetningar verði fengin vegna rannsóknar mála hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og kyrrsetningu beitt strax á stigi rannsóknar hjá því embætti, enda liggi fyrir mat embættisins á væntanlegri enduráætlun og sektarfjárhæð. Lagt er til að tollstjóri annist rekstur mála vegna kyrrsetningarkröfu að undangenginni tilkynningu frá skattrannsóknarstjóra og í þeirri tilkynningu eiga að liggja fyrir forsendur kyrrsetningarinnar.

Lagt er til að ráðstafanir samkvæmt greininni falli niður um leið og ljóst er að rannsókn skattrannsóknarstjóra muni ekki leiða til hækkunar á sköttum eða fésekt og jafnframt er lagt til að heimildum frumvarpsins verði beitt vegna mála sem rannsókn er þegar hafin á til jafns við þau sem síðar verða rannsökuð hjá skattrannsóknarstjóra.

Gera má ráð fyrir að kyrrsetningarheimild hjá skattrannsóknarstjóra muni stuðla að skilvirkari málsmeðferð en er samkvæmt gildandi lögum þar sem ekki mun þurfa að vísa máli til lögreglu eingöngu til að leggja fram kröfu um kyrrsetningu. Mikilvægt er að hafa í huga að hafa þarf hraðar hendur til að tryggja þær kröfur sem um ræðir í frumvarpi þessu.

Frú forseti. Hér er um gamlan kunningja að ræða sem hv. þingmenn eru kunnugir og í raun og veru er þetta eingöngu útvíkkun á gildandi lögum til að taka af allan vafa um að þær heimildir séu til staðar í öllum meginbálkum skattaréttarins. Niðurstaða dómstóla varð sú að hin hefðbundna tilvísun nægir ekki og hér er verið að taka m.a. inn skil á vörslusköttum og að kyrrsetningin taki óumdeilanlega til þeirra. Að þessu sögðu geri ég mér því vonir um að hv. Alþingi og þingnefnd sem er málinu kunnug geti veitt því brautargengi og tímanlega afgreiðslu.