139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[18:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég heyri þessi sjónarmið hv. þingmanns, ég ætla ekki að ræða þetta út frá einhverjum einstökum tilvikum heldur almennt. (Gripið fram í.) Ég vil leyfa mér að trúa því sem ég hef áður sagt úr þessum ræðustóli að þeir sem hér annast um framkvæmd mála séu sér vel meðvitaðir um bæði stöðu sína og ábyrgð og (Gripið fram í.) — ef hv. þingmaður vill aðeins hlusta — einfaldlega vegna þess að auðvitað gera sér allir grein fyrir því að það er ábyrgðarhlutur að fara með tæki af þessu tagi. Það kemur mjög illilega í bakið á mönnum ef þeir gera það ekki. Ef offarið er með þetta vald getur það leitt til verulegra ábyrgða og verulegs skaða og það held ég að öllum sé ljóst.

Ágreining um þetta má að sjálfsögðu hvenær sem er bera undir dómstóla eins og skýrt kemur fram í lögunum. Á hinn bóginn þurfum við líka að spyrja okkur: Af hverju ættu skattyfirvöld, og tollstjórinn þá í þessu tilviki sem er falið þetta hlutverk sem innheimtumanni, ekki að hafa þessi úrræði í fórum sínum rétt eins og lögreglan hefur í algjörlega hliðstæðum tilvikum þegar ástæða getur þótt til þess, vegna hagsmuna, að tryggja að ekki verði um undanskot á eignum að ræða, til þess að reyna að verja lögmæta og rétta hagsmuni, til þess að bjarga verðmætum sem eiga með réttu að ganga til samfélagsins eða viðkomandi aðila?

Ég nefni aftur þá staðreynd að hér geta vörsluskattar átt í hlut. Er ástæða til að hafa einhvern annan umbúnað um það að hægt sé t.d. að reyna að tryggja verðmæti til uppgjörs á vörslusköttum ef rannsókn máls bendir til þess að þeim hafi ekki verið skilað og að einhverjar eignir séu þá til staðar á móti hjá aðila sem tók við fé af öðrum og átti að koma því áleiðis til ríkisins en hefur ekki gert það? Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að menn þurfi að færa þá gild rök fyrir því úr hinni áttinni. Af hverju skyldi ekki vera mögulegt að beita þessum úrræðum í t.d. slíkum tilvikum? Sönnunarbyrðin getur alveg eins legið á þá hlið eins og hina.

Ég er auðvitað sammála hv. þingmanni um að það þarf að stíga gætilega til jarðar, það þarf að búa vel um ákvæði af þessu tagi og að sjálfsögðu að tryggja eins og nokkur kostur er að sem allra minnstar líkur séu á að þeim verði beitt í óhófi, svo ég tali nú ekki um beinlínis að þær séu misnotaðar eins og hv. þingmaður nefndi hér dæmi um frá öðrum tíma og öðru landi. Mér finnst varla að við eigum að þurfa að ræða þetta hér uppi á Íslandi á árinu 2010 í skugga af mccarthyismanum í Bandaríkjunum.