139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:00]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að mikilvægt sé nú að menn viti hver hænan er og hver eggið. Ég held að innstæðutryggingarkerfið hafi ekki valdið vandræðum heldur söfnun innstæðna í öðrum löndum. Það er hún sem veldur vandræðunum og veikleiki gjaldmiðilsins og einnig auðvitað sá ágalli að hér varð bankakerfið mjög stórt miðað við sjóðsöfnunina. Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á varð tjónið mikið en ég held að menn verði að skilgreina vandann rétt. Hann lá í söfnun innlána erlendis. Það er auðvitað sérstakt umhugsunarefni hvernig við sjáum íslenskt bankakerfi þróast að því leyti til lengri tíma litið, og er svo sem efni í sérstaka umræðu.

Forveri minn fór yfir þetta mál. Ég hef sjálfur haft á því miklar skoðanir, ekki ósvipaðar þeim sem hv. þingmaður nefnir, að mikilvægt sé að innstæðutryggingarkerfi í sjálfu sér virki þvert yfir landamæri. Það hefur verið rætt á vettvangi Evrópusambandsins og hefur verið meðal þeirra þátta sem menn hafa horft til í umræðunum um endurskoðun innstæðutryggingarkerfisins í kjölfar fjármálakreppunnar. Ég held að mikilvægt sé að við höldum þeim sjónarmiðum áfram vel á lofti og það mun ég sannarlega gera.

Í frumvarpinu sem hér er lagt fram er leitast við að sníða agnúana af með því að hækka inngreiðslurnar. Þar erum við að tefla á tæpasta vað, það er spurning hversu hátt hlutfall er hægt að ætlast til að bankar greiði inn í kerfið meðan þeir eru enn þá með veikan eiginfjárgrunn. Ég tel þó að sú niðurstaða sem kemur fram í frumvarpinu sé ásættanleg miðað við aðstæður og besta leiðin sem við getum farið. Það er síðan sjálfstætt úrlausnarefni að koma í veg fyrir þá miklu áhættu af innlánssöfnun erlendis sem kom okkur svo illilega í koll (Forseti hringir.) í fjármálahruninu.