139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að mikill skoðanamunur er á milli mín og hæstv. ráðherra. Ég ætla að fara betur yfir það í ræðu á eftir en ég er fullkomlega ósammála því sem hæstv. ráðherra sagði um eðli málsins.

Ég spurði hæstv. ráðherra hversu oft hann hefði hitt kollega sína í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að ræða þetta mál. Niðurstaða allra sem fjölluðu um þetta í hv. nefnd, í það minnsta stjórnarandstöðunnar og ég gat ekki betur heyrt en margra stjórnarliða líka, var sú að við værum með séríslenskar aðstæður sem hentuðu mjög illa fyrir þetta innstæðutryggingarkerfi. Það var mikill skilningur á því í nefndinni. Við fórum þess á leit við hæstv. fyrrverandi ráðherra að hann mundi gæta hagsmuna Íslendinga og ræða við framkvæmdastjórnina og útskýra málstað okkar Íslendinga. Ég er ekki aðdáandi Evrópusambandsins en vil því allt hið besta, ég vil bara ekki að Ísland sé aðili að því. Ég hef þó reynslu af því að þar er fólk sem bæði er hægt að hlusta á og tala við og getur komið til móts við ýmis sjónarmið. Við erum aðilar að EES og það er svo augljóst að þetta hentar illa íslenskum hagsmunum og gengur í rauninni ekki upp miðað við íslenskar aðstæður. Þess vegna fórum við þess á leit við hæstv. fyrrverandi ráðherra að hann útskýrði þau sjónarmið fyrir framkvæmdastjórninni. Ég spyr því aftur hæstv. ráðherra hvort hann hafi gert það og hversu oft. Og hver er niðurstaðan úr þeim viðræðum?