139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja.

238. mál
[19:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Ég segi bara eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson: Mikið var, tími er til kominn að það standi til að ráðast í slíka athugun og rannsókn sem hér er talað um.

Frú forseti. Það er vitanlega með ólíkindum að við skulum enn svo seint sem nóvember 2010 vera að klóra okkur í höfðinu yfir því hvernig raunveruleg staða íslenskra heimila er. Við þetta getum við bætt að við hljótum líka að klóra okkur í höfðinu yfir því hver staða íslenskra fyrirtækja raunverulega er af því að þetta hangir að sjálfsögðu allt saman. Það er mjög merkilegt að það skuli hafa tekið allan þennan tíma og í rauninni þurft að þvinga ríkisstjórnina til að fara í þá rannsókn sem hér er kveðið á um.

Frú forseti. Það er eitt í þessu frumvarpi sem mig langar strax að nefna, það er hversu mikið það er miðað við efnahags- og viðskiptaráðuneytið og ráðherra og ríkisstjórnina. Í 1. gr. og 5. gr. kemur berlega fram — og að mínu viti vantar algjörlega hvernig eigi að upplýsa Alþingi og hver aðkoma Alþingis verður að þessari vinnu. Hún er nauðsynleg til að Alþingi fái þær upplýsingar sem það telur sig vanta til að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og blanda sér inn í þau mál ef á þarf að halda að mati Alþingis.

Við megum ekki gleyma því að íslensk heimili eru einn af mikilvægustu þáttum okkar efnahagslegu framfara. Þau eru uppspretta viðskipta, þau eru uppspretta atvinnu um leið, þau eru uppspretta gæða sem verða til því að sem betur fer hafa enn fleiri af þeim sem tilheyra íslenskum fjölskyldum atvinnu í dag en ekki. Vonandi breytist það ekki, frú forseti. En það er vissulega áhyggjuefni hversu máttlítil ríkisstjórnin er í að snúa hjólum atvinnulífsins og snúa hag heimilanna til betri vegar. Ég vona að þessi heimild sem ráðherra er hér að óska eftir verði nýtt til þess að fá sem réttasta mynd af þessari stöðu sem mun þá væntanlega flýta fyrir einhverjum alvöruaðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Við höfum margoft sagt í þessum ræðustól og flutt um það tillögur þingmanna Framsóknarflokksins og fleiri að grípa verði til almennra aðgerða og það sem allra fyrst. Hingað til hefur ekki verið á það hlustað, því miður, en við höfum eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi áðan óskað sérstaklega eftir fundi um almennar leiðréttingar ásamt þingmönnum Hreyfingarinnar og óskað eftir því að talsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna komi þar að.

Frú forseti. Ég get ekki sleppt því að nefna það sem ég kýs að kalla ófrægingarherferð gagnvart fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna sem hefur lagt mikið á sig í að opinbera og kynna þær aðgerðir og aðferðir sem er best að nota til að jafna stöðu heimilanna. Það virðist sem fjölmiðlar hafi tekið sér það bessaleyfi að reyna að ófrægja þessa aðila, þá sérstaklega þann sem hefur hvað mest á sig lagt í þessu, þrátt fyrir að það sé ekkert öðruvísi staða á þeim bænum en hjá hundruðum eða jafnvel þúsundum annarra heimila.

Frú forseti. Stjórnvöld klúðruðu einkavæðingu bankanna. Það varð til þess að það svigrúm sem við höfum haft til almennra leiðréttinga hefur að sjálfsögðu þrengst. Það er þó ekki útilokað eins og við höfum bent á, margir þingmenn. Að okkar mati hafa menn ekki staðið sig nógu vel í því að draga fram heildarmyndina, hvað það er sem tapast við að fara ekki þá almennu leið sem við höfum talað fyrir. Vonandi er þetta frumvarp liður í að varpa ljósi á það.

Við sjáum líka að það er skortur á því að atvinnulífið sé örvað. Það er mikilvægt að gera það um leið og við hugum að heimilunum. Eins og ég nefndi áðan eru þau mikilvægur þáttur í efnahagslífi okkar. Það er merkilegt að sjá það í könnun sem nýlega var birt, að mig minnir af hálfu Samtaka atvinnulífsins, að atvinnurekendur líta á stjórnvöld sem helsta vandamálið og vantreysta því. Það er nákvæmlega það sama og við mörg hver höldum að sé skoðun heimilanna á því helsta vandamáli sem þau eru að glíma við. Það vantar trú á framtíðina, vantar skýra framtíðarsýn frá stjórnvöldum sem komi þeim til aðstoðar.

Nú verðum við að berja í borðið, frú forseti, og segja við stjórnvöld og þá aðila sem geta komið inn í að leysa þetta mál með okkur: Nú verður ekki lengur heima setið, heldur þarf að fara af stað.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa allt of lítið að mínu viti látið sig málefni heimilanna varða. Með ólíkindum þykir mér hversu oft við höfum upplifað að þeir taki aðra stöðu. Það er mjög mikilvægt að á næstu dögum og vikum fylki þessir aðilar sér, ekki síst Alþýðusambandið, á bak við heimilin, berji í borðið og segi: Það að leysa vanda heimilanna er hluti af því að leysa kjaramálin og horfa til framtíðar. Það er mikilvægt og við munum krefjast þess að svo verði. Ég sakna þess að heyra ekki meiri baráttuanda á þeim bænum fyrir heimilin í landinu.

Frú forseti. Þrátt fyrir þennan tón í ræðu minni fagna ég því að sjálfsögðu að þetta skuli loksins komið fram, en það átti að gerast fyrir mörgum mánuðum. Þá værum við með í höndunum upplýsingar sem við gætum betur treyst í stað þess að hafa í höndunum upplýsingar sem eru jafnvel ársgamlar, byggja á skattframtölum og einhverju slíku í staðinn fyrir að geta keyrt saman upplýsingar. Ég vil nota tækifærið af því að ég sé að hv. þm. Pétur H. Blöndal er á svæðinu og kominn í salinn til að þakka honum fyrir það hversu oft hann hefur bent á mikilvægi þess að hægt sé að keyra saman upplýsingar til að átta sig á stöðu heimila og fyrirtækja. Þótt ég hafi ákveðnar efasemdir um hversu framkvæmdarvaldsmiðað þetta frumvarp er, mér finnst vanta inn í vinkil Alþingis á það, vona ég að það sé upphafið að frekari rannsóknum sem þessum.