139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja.

238. mál
[19:48]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir flutningsræðu hans um frumvarpið og sömuleiðis fyrir að leggja það fram. Ekki er vanþörf á að fram fari úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Það verður að segjast að það er mjög ankannalegt, skulum við segja, og í raun hálffáránlegt að núna, þann 23. nóvember 2010, sé lagt fram frumvarp til laga til þess að tryggja að úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja fari fram vegna þess efnahagshruns sem varð á árinu 2008, sem sagt rúmum tveimur árum eftir efnahagshrunið. Málið kemur mjög seint fram en það er betra að það komi fram en að það geri það ekki vegna þess að viðfangsefnin eru mjög mikilvæg. Það er lífsspursmál fyrir þá sem starfa á vettvangi stjórnmálanna, atvinnulífsins, vinnumarkaðarins og hvar sem er í þjóðfélaginu að hægt sé að kortleggja raunverulega fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja.

Ekki fyrir alls löngu fólu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn svokölluðum reiknimeisturum ríkisstjórnarinnar að gera úttekt á fjárhagsstöðu heimila til að reyna að koma fram með tillögur um hvernig leysa á skuldavanda heimilanna. Þeir útreikningar liggja núna loksins fyrir en það bólar ekkert á neinum tillögum til lausnar frá hæstv. ríkisstjórn. Gallinn við þá úttekt sem reiknimeisturum ríkisstjórnarinnar var falið að gera af hálfu hæstv. forsætisráðherra og fleiri hæstv. ráðherra var að þær tölur sem reiknimeistaranefndin hafði í höndunum voru gamlar, eins og komið hefur fram. Þær byggðu á gömlum upplýsingum sem varpa ekki nákvæmu ljósi á þá stöðu sem er uppi í dag, þær byggðu á gömlum skattframtölum og upplýsingum sem voru allt að því ársgamlar sem gera gagn að sínu leyti en eru kannski ekki þess eðlis að þær geti varpað nákvæmu ljósi á stöðu heimilanna eins og hún er akkúrat núna.

Ég hlýt að styðja að fram fari úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Ég vek athygli á því að félagi minn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Pétur H. Blöndal, hefur verið óþreytandi við að benda á það á þingi, bæði úr þessum ræðustól og ekki síður á göngum þessa húss, hversu mikilvægt það er að ráðast í slíka úttekt og könnun. Það er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt að sú vinna fari fram. En menn skyldu búa sig undir það þegar verkinu er lokið og afurðin birtist, að skýrslan verði býsna svört. Við vitum að fjárhagsstaða heimilanna er slæm og stór hluti atvinnulífsins berst í bökkum og hefur gert það alveg frá efnahagshruni. Það sem er sárgrætilegast við þá stöðu sem nú er uppi í atvinnulífinu og málefnum heimilanna er að þótt efnahagshrunið hafi verið slæmt hefur núverandi vinstri stjórn, norræna velferðarstjórnin, stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, lagt sitt af mörkum til þess að gera slæma stöðu enn verri og þumbast við að grípa til nauðsynlegra aðgerða, bæði hvað varðar heimilin í landinu og ekki síður hvað varðar málefni atvinnulífsins.

Það er ekki hægt að segja annað en að ríkisstjórnin hafi gert aðför að heimilunum og fyrirtækjunum í landinu frá því að hún tók við. Það er ekki hægt að nota önnur orð um framgöngu ríkisstjórnarinnar gagnvart heimilunum og fyrirtækjunum í landinu.

Af hverju segi ég það? Vegna þess að ríkisstjórnin hefur slegið Íslandsmet í skattahækkunum gagnvart heimilunum og fyrirtækjunum. Hún hefur lofað upp í ermina á sér varðandi lausn á skuldavanda heimilanna sem hún hefur ekki getað staðið við. Henni virðist vera nokk sama um þær þúsundir Íslendinga sem mæla nú göturnar, þurfa að sætta sig við atvinnuleysi og þiggja atvinnuleysisbætur. Menn hafa ekki reynt að byggja upp atvinnu og tryggja fólkinu vinnu svo það hafi laun til þess að greiða af lánum sínum o.s.frv. Áhugaleysi ríkisstjórnarinnar við uppbyggingu á atvinnutækifærum eins og á Bakka og í Helguvík sýna það allra best að þessi ríkisstjórn hefur haft lítinn áhuga á því að vinna á atvinnuleysisfjandanum sem herjað hefur á þetta land og þessa þjóð. Það sama má segja um atvinnulífið.

Hér var gerður stöðugleikasáttmáli sem ríkisstjórnin hljóp undan skömmu eftir að blekið á þeim samningi hafði þornað. Niðurstaðan er sú að fyrirtækin hafa ekki náð sér á strik og munu ekki gera það nema róttæk breyting verði á stjórnarháttum á Íslandi. Menn skyldu því búast við því að þegar sú skýrsla eða úttekt sem frumvarp þetta mælir fyrir um, lítur dagsins ljóst að hún verði svört.

Eins og fram kemur í 1. gr. þessa frumvarps er markmið þess að tryggja efnahags- og viðskiptaráðherra aðgang að upplýsingum sem honum eru nauðsynlegar til þess að gera úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Síðan segir í 2. mgr. 1. gr. að ráðherra sé heimilt að gera úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja til að stjórnvöld öðlist glögga yfirsýn yfir fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja hér á landi á nokkurra ára tímabili.

Eins og ég hef áður komið inn á í ræðu minni er mikilvægt að sú úttekt fari fram en ég vil vekja hins vegar athygli á því að með frumvarpinu er verið að færa hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra rosalegar heimildir til þess að afla gagna um persónuleg málefni einstaklinga og fyrirtækja. Menn sjá í 2. gr. frumvarpsins að ráðherra er heimilt að safna gögnum frá lögaðilum og einstaklingum sem innihalda upplýsingar um fjárhagslegar aðstæður einstaklinga, fjölskyldna og lögaðila sem gerð er grein fyrir í frumvarpinu. Það eru upplýsingar frá Íbúðalánasjóði, fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum og Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ráðherra er veitt heimild til að fá upplýsingar um fjárhæðir, innborganir, kjör, stöðu og tryggingar þeirra lána sem þessir einstaklingar hafa veitt einstaklingum og lögaðilum. Þá er ráðherra veitt heimild til að fá upplýsingar úr skattframtölum og vegna staðgreiðslu opinberra gjalda einstaklinga og lögaðila. Hæstv. ráðherra er veitt heimild til að fá upplýsingar um umsóknir og skráningar einstaklinga á atvinnuleysisskrá, um starfshlutfall hvers umsækjanda, fjárhæðir, hlutfall greiddra atvinnuleysisbóta o.s.frv. Honum eru tryggð gögn frá þjóðskrá, frá Fjársýslu ríkisins, m.a. sem varða upplýsingar um útgreiðslu barnabóta til framfærenda barna og um útgreiðslur vaxtabóta, upplýsingar frá sveitarfélögum og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um greiddar húsaleigubætur, veitta fjárhagsaðstoð og aðrar bótagreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins um útgreiðslur bóta til einstaklinga, upplýsingar um greiðsluaðlögun einstaklinga frá umboðsmanni skuldara, upplýsingar frá Innheimtustofnun sveitarfélaga, um meðlagsskuldir og innheimtu þeirra, og í rauninni allar þær upplýsingar sem til eru um fjárhagsstöðu einstaklinga og borgara þessa lands.

Það má kannski halda því fram að nauðsynlegt sé að veita hæstv. ráðherra þær gríðarlegu heimildir til þess að afla sér upplýsinga, en hér er svo langt gengið að það er eins gott að tryggt sé að þær verði ekki misnotaðar.

Ég tók eftir því að í greinargerð með frumvarpinu er samið samkvæmt samráði við Persónuvernd um meðferð gagnanna. Ég hygg að það styrki efni frumvarpsins að Persónuvernd hafi komið að málinu, enda ekki vanþörf á vegna þess að fjárhagsupplýsingar eru einhverjar mikilvægustu persónuupplýsingar sem til eru um fólk. Auðvitað skipta heilsufarsupplýsingar og annað slíkt meira máli en ef menn fara yfir þau lagaákvæði sem finna má í lagasafni Íslands um fjárhagsmálefni einstaklinga eru allir þeir sem sýsla með slíkar upplýsingar, svo sem endurskoðendur, lögmenn, starfsmenn banka, starfsmenn skattsins og fleiri og fleiri aðilar, skyldugir til að undirgangast þagnarskyldu um allar slíkar upplýsingar. Það er því gríðarlega mikilvægt að vel verði farið með þessar upplýsingar og full ástæða til þess að geta þess og minna á það hversu ofboðslegt vald verið er að veita hæstv. ráðherra með því frumvarpi sem er til umfjöllunar.

Í því sambandi vil ég nefna að kveðið er á um það í 6. gr. frumvarpsins að þagnarskylda hvílir á ráðherra og öðrum sem koma að úttektinni, samkvæmt 18. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 136. gr. almennra hegningarlaga, um þær upplýsingar sem leynt eiga að fara. Þegar menn skoða 136. gr. almennra hegningarlaga sjá þeir að brot gegn þeirri grein varðar allt að þriggja ára fangelsi. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé ástæða til að hafa viðurlögin enn harðari, sé brotið gegn þessum lögum. Mér finnst það alla vega koma til álita í ljósi þess sem hér hefur komið fram og ég hef gert grein fyrir varðandi þær viðamiklu heimildir sem frumvarpið mælir fyrir um til handa hæstv. ráðherra.

Ég vil líka geta þess að í gildistökuákvæði frumvarpsins er kveðið á um að lögin falli úr gildi hinn 1. janúar 2014 og fyrir þann tíma skuli þeirri úttekt sem frumvarpið mælir fyrir um vera lokið og öllum samkeyrðum gögnum eytt. Nú eru fjögur ár þar til lögin eiga að falla úr gildi samkvæmt, eða rúm þrjú ár, samkvæmt því gildistökuákvæði sem frumvarpið mælir fyrir um. Ég velti því upp hvort ekki sé ástæða til að stytta þann tíma sem ákvæðið mælir fyrir um en fella þá kannski frekar bráðabirgðaákvæði inn í lögin sem heimilar framhald þeirrar vinnu og þeirra heimilda sem frumvarpið mælir fyrir um.

Að öðru leyti ítreka ég það sem komið hefur fram í málinu. Ég styð að fram fari úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja svo fremi sem sá ráðherra sem heimildina fær fari vel með vald sitt. Það er betra að málið sé komið fram en ekki. (Forseti hringir.) Þótt það sé seint fram komið hljótum við öll að fagna því að til standi að gera slíka úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja sem hefði átt að vera búið að ráðast í fyrir löngu síðan.