139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja.

238. mál
[20:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Það er ekki seinna vænna að menn fari að átta sig á því hvernig landið liggur. Miklar kröfur eru um að gerðar séu einhverjar ráðstafanir til að bjarga stöðu þeirra heimila sem eru illa sett. Vandinn við þær ráðstafanir allar er að menn vita í rauninni ekkert hvernig landslagið er. Ýmis hagsmunasamtök hafa unnið mjög ötullega að því og afskaplega óeigingjarnt starf og vil ég í því sambandi nefna Hagsmunasamtök heimilanna sem hafa lagt mikið á sig við að koma með upplýsingar og kröfur um úrbætur sem verður seint vanþakkað. Önnur samtök hafa svo sem komið fram áður eins og Indefence varðandi Icesave. Það virðist vera og er í sjálfu sér víða um heim þannig að slík samtök og félagasamtök varpa ljósi á viss vandamál sem koma upp í samfélagi sem stjórnvöld átta sig ekki alltaf á.

Vandinn við að koma með úrbætur núna, sem mikil krafa er um og jafnvel talað um daga en ekki vikur, er að menn vita nánast ekkert um stöðu heimilanna. Nýjustu upplýsingar eru ársgömul framtöl miðað við árslok 2009, fyrir úrskurð Seðlabankans um gengistryggðu lánin sem breytti stöðu alla vega 40 þús. bíleigenda og 7% þeirra sem skulda íbúðarlán. Staðan hefur breyst allverulega til bóta í mörgum tilfellum og er eiginlega nauðsynlegt að hafa hana áður en menn koma með einhverjar aðgerðir sem kosta mjög mikið.

Margir hafa talað um forsendubrest og hann hefur orðið mjög víða. Fyrsti forsendubrestur var náttúrlega eignahrun í hlutabréfum og stofnfjárbréfum sem urðu gjörsamlega verðlaus, frú forseti, síðan lækkun á fasteignaverði, hækkun á lánum vegna verðbólgu o.s.frv. En sá forsendubrestur sem ég tel að sé alvarlegastur er það fólk sem missti vinnuna algjörlega og tilviljunarkennt. Uppsagnir í bönkunum voru mjög tilviljunarkenndar, uppsagnirnar hjá Orkuveitu Reykjavíkur núna nýverið á 65 einstaklingum voru líka tilviljunarkenndar — einni deild var lokað. Það fólk sem hafði hugsanlega verið fært þangað einhvern tímann leið núna fyrir það. Menn sem sóttu um starf hjá Orkuveitunni og í staðinn fyrir að fara í bókhaldið fóru þeir í markaðsdeildina sem varð til þess að þeir misstu vinnuna. Ég tel að það sé forsendubrestur. Sá forsendubrestur er svo alvarlegur að heimili með tveimur fyrirvinnum, við skulum gefa okkur með 700 þús. kr. í mánaðarlaun eftir skatta, það er ekki óalgengt eða var ekki óalgengt, ef báðir aðilar verða atvinnulausir þarf heimilið að lifa á 300 þús. kr. á mánuði sem er alveg gífurlegur forsendubrestur þar sem tekjur heimilisins lækka um 400 þús. kr. á mánuði. Mörg heimili hafa líka misst yfirvinnu og þurfa að sætta sig við lægri laun eða launin hafa hreinlega verið lækkuð sem er alls ekkert óalgengt. Menn þurfa að sætta sig við lægra starfshlutfall. Margir voru í tveimur störfum, hafa misst annað starfið. Skortur á atvinnu og það að atvinna datt niður í einhverjum mæli er kannski fyrst og fremst sá forsendubrestur sem við glímum við og vegur miklu þyngra en t.d. vandamál vegna gengistryggðra lána eða því um líkt þó að það sé óneitanlega mjög erfitt líka. Til að laga þann forsendubrest sé ég engin önnur úrræði en að auka atvinnu, auka atvinnu, auka atvinnu, frú forseti. Það á að vera verkefni þingmanna númer eitt, tvö og þrjú að skapa forsendur til þess.

Það vandamál sem við glímum við er þannig að mér finnst rannsóknin vera allt of tímafrek — allt of tímafrek. Hún kemur eftir þrjú ár en krafan um úrræði er núna. Þess vegna hef ég smíðað frumvarp sem ég hef kynnt fyrir mjög mörgum þingmönnum, þar á meðal allsherjarnefnd sem ég vildi gjarnan að flytti það, sem gengur út á að ná þessu innan mánaðar. Upplýsingarnar eru allar til á tölvutæku formi. Röskur forritari væri ekki lengi að skilgreina hvað hann vildi draga fram og stofnanir og fyrirtæki, lífeyrissjóðir og fleiri, hafa öll kerfisfræðinga og forritara á sínum snærum sem yrðu mjög fljótir að vinsa úr allar þær upplýsingar sem krafist væri eftir kennitölum. Þá kemur að vandanum mikla þegar öll þessi gögn væru komin saman sem ætti að vera hægt á stuttum tíma.

Ég bendi á, frú forseti, að Seðlabankinn er búinn að vinna mjög mikið brautryðjendastarf í því að skilgreina hver staða heimilanna er. Hagstofan er að einhverju leyti búin að skilgreina hvað fjölskylda er þó að sú skilgreining kunni hugsanlega að vera broguð, mér skilst t.d. að fullorðinn einstaklingur sem býr heima hjá foreldrum sínum og er í námi og kannski tekjulaus, eignalaus og skuldlaus, sem sagt í „vonlausri“ stöðu, sé talinn sem sér heimili, þó veit ég það ekki. Það er örugglega hægt að finna út úr því að tengja hann við foreldra sína eða þá sem hann býr hjá. Niðurstöður þessarar vinnu eru til hjá Seðlabankanum. Mér finnst alveg sjálfsagt að nýta þær. Þá er það spurningin: Hvernig verndum við þessar upplýsingar og hver á að sjá um framkvæmdina? Mér finnst eðlilegast að Hagstofan, sem vinnur með svona upplýsingar alla daga og er búin að skilgreina heilmikið í kringum stöðu heimilanna, hefur birt um það gögn og annað slíkt, sé miðstöð slíkrar upplýsingasöfnunar. Persónuvernd mundi gæta þess að upplýsingarnar færu ekki um víðan völl. Það er afskaplega mikið atriði að það gerist ekki. Fjármálaeftirlitið á að gæta bankaleyndar sem þarna yrði rofin því að bankarnir væru að veita upplýsingum inn í þetta kerfi, það er mjög mikilvægt að þeim yrði haldið leyndum líka. Þess vegna hef ég hugleitt og lagt til að þessir aðilar fengju þrjá dulritunarlykla sem gerðu það að verkum að það væri eða ætti að vera nánast ómögulegt að brjótast inn í kerfið. Dulritunarlyklana þrjá frá Hagstofunni, Persónuvernd og bankaeftirlitinu þyrfti að nota samtímis til þess að hægt væri að setja inn gögn og vinna þau. Ég tel að slíkt kerfi mundi tryggja gögnin þannig að jafnvel væri hægt að geyma þau á netinu vegna þess að ekki væri nokkur leið að brjótast inn í kerfið og finna upplýsingarnar.

Ég vil að menn skoði líka mjög náið hvort ekki sé hægt að gera þetta miklu hraðar. Ég tel að við eigum að hafa þann metnað að upplýsingarnar liggi fyrir einum mánuði eftir byrjun hvers ársfjórðungs þannig að þær nýtist, t.d. núna við þær ráðstafanir sem um ræðir, og að það séu hagsmunir þjóðarinnar að þetta sé gert. Það er svo mikilvægt að þær ráðstafanir sem við förum út í gagnist þeim sem þær eiga að gagnast en séu ekki þannig að þær séu allt of dýrar og veiti fullt af fólki lækkun á lánum og annað slíkt sem ekki þarf á því að halda á meðan aðrir sitji eftir með óleystan vanda.

Ég mundi gjarnan vilja að menn sýndu miklu meiri metnað en að hafa þrjú ár undir. Ég mundi vilja hafa það mánuð, kannski tvo mánuði í fyrsta skiptið, en það er það ýtrasta sem ég held að heimilin geti beðið. Mér finnst að menn eigi að bíða eftir þessum niðurstöðum áður en þeir gera ráðstafanir þannig að við, hv. þingmenn, vitum hvað við erum að gera.

Ég hef spurt nokkrum sinnum: Hvað eru margir leigjendur á Íslandi? Það liggur ekki einu sinni fyrir. Hvað er að gerast með þann hóp fólks? Mér skilst að leigjendur séu um 20 þús. Það hef ég frá Hagstofunni — 20 þús. leigjendur, þ.e. þeir sem fá væntanlega húsaleigubætur eða ég veit ekki nákvæmlega hvernig það er fundið út. En fjöldi fólks er hvergi á skrá sem leigjendur vegna þess að það er yfir mörkum til að fá húsaleigubætur eða húsaleigan er ekki talin fram, sem er líka eitt vandamálið. Þessi hópur borgar hækkandi leigu. Oft og tíðum er hún verðtryggð. Einhverjir leigjendur eru kannski atvinnulausir. Þá sé ég ekki hvernig dæmið gengur upp. Það gengur alls ekki upp. Svo á að skerða húsaleigubætur um nærri milljarð núna, á sama tíma og reynt er að bjarga öðrum hóp, sem eflaust er í miklum vanda líka, með upphæðum sem eru hundruð milljarðar. Ég held að það þurfi líka að skoða þá sem urðu fyrir þeim forsendubresti að missa vinnuna og leigja og borga hækkandi leigu. Mér finnst nauðsynlegt að menn skoði það.

Svo getur maður lesið út úr skýrslu sérfræðinganna sem mikið hefur verið vitnað til að 27 þús. heimili eigi fasteign og skuldi ekki neitt eða skuldi ekki í þeirri fasteign. Þau heimili eru væntanlega mjög vel sett, þó veit maður það ekki einu sinni heldur. Það getur verið að þau séu tekjulaus þótt þau séu jafnframt skuldlaus.

Það er mjög margt sem við vitum ekki. Ég tel mjög brýnt að menn fari í svona vinnu og geri það hratt og hafi þann metnað að niðurstöðurnar liggi mjög fljótt fyrir. Ég held að ef menn settust niður núna fyrir áramót, þeir aðilar sem unnu þetta hjá Seðlabanka Íslands og þeir aðilar sem hafa verið að vinna með svona gögn hjá Hagstofunni og aðrir þeir sem vit hafa og áhuga, og ynnu mjög markvisst í þrjár vikur eða lengur, fram að áramótum, ætti brátt að liggja fyrir hvernig staða heimilanna yrði kortlögð og þá yrði auðveldara að óska eftir upplýsingum frá fyrirtækjum. Mér finnst mjög slæmt að í 2. gr. þessa frumvarps séu taldir upp þeir aðilar sem veita upplýsingar. Ég vil hafa það opið. Allir sem búa yfir upplýsingum um stöðu heimilanna eiga að veita þær, síðan yrðu þær keyrðar saman. Persónuvernd og Fjármálaeftirlitið ásamt Hagstofunni mundu gæta að persónuvernd annars vegar og bankaupplýsingum hins vegar. Upplýsingarnar yrðu keyrðar saman og kerfinu síðan læst með þeim hætti að ekki væri hægt að brjótast inn í það. Ég bendi á að Bandaríkjaher geymir upplýsingar um kjarnorkuvopn sín með svipuðum hætti og er öryggi þeirra tryggt.

Ég tel að vegna þeirrar stöðu sem er í landinu, þess óróa sem er í gangi og þeirrar óánægju sé mjög brýnt að þetta sé gert hratt og það sé settur sá kraftur í þetta sem þarf til að upplýsingarnar liggi fyrir ekki seinna en u.þ.b. 20. janúar. Þá getur maður farið að ræða af alvöru ráðstafanir til að bæta stöðu heimilanna, hvort sem það yrði gert með almennri niðurfellingu á skuldum, hækkun á atvinnuleysisbótum, hækkun á húsaleigubótum eða með því að taka upp nýtt kerfi sem kæmi í staðinn fyrir húsaleigubætur og vaxtabætur og héti kannski „húsnæðisbætur“ sem ég tel mjög brýnt akkúrat í þessari stöðu. Þannig finnum við lausnir sem gagnast þeim heimilum sem eru í alverstum vanda.