139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja.

238. mál
[20:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna en mér fannst hún dálítið neikvæð. Ég vil spyrja hann: Er það þannig að frumvarpið sé óbreytanlegt í nefnd? Til dæmis eru í 2. gr. taldar upp þær stofnanir sem eiga að veita upplýsingar, stofnanir, lífeyrissjóðir og fleiri. Þetta er ákaflega þröngt. Það getur vel verið að mönnum detti eitthvað í hug sem vanti inn í þetta. Væri ekki miklu betra að hafa þetta opið og segja að allir þeir aðilar sem búa yfir upplýsingum sem varða hag heimila skuli skila þeim? Það vantar t.d. inn í þetta sjúkrasjóði stéttarfélaganna. Það vantar líka inn í hreinlega stéttarfélögin sjálf sem eru stundum að styrkja eitt og annað. Að þessu leyti held ég að það sé betra að hafa þetta opið vegna þess að þegar menn fara að vinna þetta gæti komið í ljós að það vantaði einhvern aðila sem býr yfir upplýsingum um stöðu heimilanna.

Svo saknaði ég þess líka að verndun þessara gagna sé nægilega trygg. Ég er ekki hrifinn af því að stóri bróðir fái þvílíkt gagnasafn í hendurnar og það sem helgar afstöðu mína er það að við búum við ákveðna þörf á því að koma með lausnir sem brýtur hitt markmiðið að stóri bróðir viti ekki of mikið. Ég tel að verndun gagna þurfi að vera miklu sterkari og hún þurfi að vera skilgreind í lögunum til að það fari ekki á milli mála. Þetta þarf líka að ná yfir lengri tíma því að ég hugsa að 2014 verðum við ekki komin með nægilega mikil gögn um stöðu heimilanna eða búin að laga svo stöðu heimilanna að við þurfum ekki að bregðast við þeim breytingum sem þá verða, enda gætum við hvenær sem er tekið lögin úr gildi ef því er að skipta.