139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja.

238. mál
[20:23]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um upptalningu í 2. gr. Ég held að hún sé afskaplega mikilvæg og satt að segja algjörlega nauðsynleg. Ég get ekki ímyndað mér nokkurn þessara aðila afhenda gögn á grundvelli svo óljósra lagaheimilda eins og hv. þingmaður nefnir. Ef þarna stæði að allir sem hefðu upplýsingar um hag heimila ættu að láta þær af hendi held ég að allir þessir aðilar mundu synja um þær á grundvelli þess að þeir teldu að þeir þyrftu beina og skýrt skilgreinda lagaskyldu til að láta slíkar upplýsingar af hendi. Ég nefni bara skattinn sem lætur aldrei nokkrar upplýsingar af hendi nema með skýrri lagaskyldu og aðrir þeir aðilar sem þarna eru taldir. Þar fyrir utan er slíkt lagaákvæði allt of óljóst. Það væri þá hægt, ja, mér dettur nú bara í hug að það væri þess vegna hægt að krefja presta um upplýsingar af því að þeir hafa náttúrlega ýmsar upplýsingar um hag heimila, þeir hafa upplýsingar um ýmsa hluti sem þeir verða áskynja í sínu starfi og í sinni sálgæslu.

Við verðum að skilgreina skýrt hvað við ætlum ríkisvaldinu aðgang að með þessu og hvaða gögn eigi að fara þarna inn, því að enginn þessara aðila mun láta gögn af hendi út frá grundvallarreglum sem um hverja og eina stofnun gilda nema um það sé skýr lagaheimild.

Varðandi verklagið að öðru leyti göngum við út frá því með því að setja þessi lög að þau gildi út tímabilið til ársins 2014. Ákveði Alþingi að fella þau úr gildi ónýtist væntanlega það sem þegar er komið inn af gögnum og afgangurinn af rannsókninni, en við getum auðvitað tekið út upplýsingar um leið og fyrstu samkeyrslur eru gerðar og þær hjálpa okkur þá alla vega á þessari leið.