139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í gær fengum við alvarlegar fréttir. Hagstofan spáir 3% samdrætti á þessu ári en efnahagsáætlun AGS gerir hins vegar ráð fyrir mun minni samdrætti, um 0% hagvexti á ári.

Þetta eru fréttir sem koma mér ekki á óvart. Frá hruni hafa ríkisstjórnir ekki hlustað á varnaðarorð mín um að efnahagsáætlun AGS dýpki kreppuna. (Gripið fram í.) Það voru t.d. mistök að hækka stýrivexti í 18% í nóvember 2008 þegar rétt hefði verið að lækka þá niður í 5% eins og m.a. ég lagði til. Það voru jafnframt mistök að taka ekki upp 80% skattlagningu á útstreymi fjármagns strax í nóvember 2008 eins og ég lagði til. Þannig hefðu skapast skatttekjur sem hægt hefði verið að nota til að fjármagna endurreisn bankakerfisins og halla ríkissjóðs.

Ein alvarlegustu mistökin voru að taka ekki strax á skuldavanda heimila og fyrirtækja eins og Framsóknarflokkurinn þrýsti á. Slík aðgerð hefði verið hraðvirk og tryggt bæði eftirspurn og sátt í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Við munum ekki komast út úr kreppunni nema ríkið hætti við niðurskurð sem leiðir til fækkunar starfa, hækki lágmarksbætur og stuðli að hækkun lágmarkslauna til að örva eftirspurn ásamt því að veita fjármagn í atvinnuskapandi verkefni.

Virðulegi forseti. Ég vil vita hvort varaformaður Framsóknarflokksins sé mér sammála um að efnahagsáætlun AGS hafi dýpkað kreppuna og að fara eigi hægar (Forseti hringir.) í niðurskurðinn á næsta ári.