139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér fara fram athyglisverð skoðanaskipti um efnahagsmálin. Það væri fróðlegt að fá að heyra frá öðrum þingmönnum stjórnarflokkanna hvaða skoðun þeir hafa á því hvernig ríkisstjórninni tekst að halda fram einhverri stefnu þó að öllum í þingsalnum sé ljóst að stefnuleysið er algjört og að það er orsökin fyrir því hvernig málum er komið.

En það var ekki þetta sem olli því að ég ákvað að kveðja mér hljóðs og gefa yfirlýsingu undir þessum lið, heldur þær umræður sem hafa farið fram í vikunni um færslu Markarfljóts. Siglingastofnun hefur lagt fram leiðir um aðgerðir vegna byrjunarörðugleika í Landeyjahöfn um hvernig eigi að halda höfninni opinni. Ein af tillögunum felst í því að færa ósa Markarfljóts með bráðabirgðavarnargarði. Því var haldið fram í pontu í gær af hv. formanni umhverfisnefndar Merði Árnasyni að ekkert samráð hefði verið haft við nokkurn mann um þessar aðgerðir og að þetta gætu ekki talist góðir stjórnsýsluhættir. Því er nauðsynlegt að upplýsa hv. þingmenn um að samráðsfundur var haldinn með helstu aðilum á mánudaginn þar sem aðilar frá sveitarstjórn og Siglingastofnun funduðu með Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, almannavarnanefnd og landeigendum til að fara yfir þessa tillögu. Á þeim fundi var málið upplýst og farið yfir það hvaða möguleikar væru í stöðunni. Nú stendur yfir vinna við að útfæra hugmyndina um varnargarð á annan hátt til að sátt megi ríkja um þessa framkvæmd. Það er gríðarlega mikilvægt.

Þeir sem til þekkja og hafa komið austur fyrir fjall þekkja það að Markarfljótið er á stöðugri hreyfingu. Það var síðast fært til af manna völdum þegar grjótflutningar vegna hafnargerðarinnar stóðu yfir. Þá var fljótið einfaldlega fært til vegna þess að Markarfljótsaurarnir eru viðamiklir og fljótið hefur, eins og ég hef sagt og ég hélt að væri alkunna, flæmst um Suðurlandið og undirlendið í Rangárvallasýslu síðustu árhundruðin. (Forseti hringir.) Ég mæli með því í ljósi góðra stjórnsýsluhátta að formaður umhverfisnefndar tjái sig ekki um mál fyrr en hann hefur kynnt sér þau, a.m.k. lítillega.