139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:23]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Upp á síðkastið hefur mikið verið rætt um að til að ná sem bestum hagræðingaráhrifum á háskólastiginu og koma í veg fyrir að niðurskurður bitni um of á gæðum háskólamenntunar í landinu sé mjög mikilvægt að skólunum fækki, þeir verði um leið efldir mjög og að aukið hagræði náist, bæði hvað varðar menntunarstig þeirra og reksturinn. Skólarnir eru núna sjö talsins og hefur verið talað um að fækka þeim jafnvel allt niður í tvo. Það voru nokkur vonbrigði á dögunum þegar ekki gekk saman með Háskólanum í Reykjavík og Bifröst. Það á sér að sjálfsögðu sínar skýringar og við eigum eftir að sjá hvernig því vindur fram. Þess vegna vildi ég beina þeim orðum til formanns menntamálanefndar hvort nefndin hefði rætt um hvort hugsanlega ætti að skilyrða framlög til háskólanna við samruna í stað óljósra fyrirheita um aukna samvinnu sem litlu skilar. Ég tel mikilvægt að bæði hæstv. menntamálaráðherra og hv. menntamálanefnd beiti sér af meiri þunga fyrir því að skólarnir renni saman. Þar kemur ýmislegt til greina. Ein leiðin er að sameina háskólana á landsbyggðinni í einn skóla eins og kemur fram í áliti 2. minni hluta menntamálanefndar og hv. þm. Eygló Harðardóttir kynnti í fjárlaganefnd í morgun. Það er mjög athyglisverð hugmynd. Hin er að búa til regnhlíf yfir alla ríkisreknu skólana og aðra yfir alla einkareknu eða sjálfstæðu háskólana. Kostirnir eru ýmsir en ég sakna þess að ekki sé meiri vinna í gangi í þessu. Það getur vel verið að það sé verið að gera meira bak við tjöldin og að hv. menntamálanefnd hafi upplýsingar um að verið sé að gera meira en bara hvetja skólana til samvinnu, eða samruna ef sú samvinna tekst. Ég held að við eigum að nota það tækifæri sem fjárlagagerðin er núna til að þrýsta mjög á um að skólarnir renni saman, (Forseti hringir.) þeim fækki og þeir verði miklu öflugri og færri á eftir.