139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

efnahagsmál -- málefni fatlaðs drengs -- skuldavandi heimilanna o.fl.

[14:30]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í tilefni af orðum hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur áðan er þær fréttir að segja að í gær var einmitt haldinn samráðsfundur fulltrúa úr nokkrum stofnunum um ráðagerðir til að koma Landeyjahöfn í lag, hvort sem það gengur eftir eða ekki. Þar á meðal var rædd sú hugmynd sem uppi er um flutning Markarfljótsósa.

Það er gleðilegt að segja frá því að þær hugmyndir eru ræddar með stillingu og í fullri alvöru. Það á eftir að útfæra hvernig það getur orðið, en þær nýju fréttir eru af því að nú stendur til að gera þetta aðeins í tvö ár vegna þess að Markarfljót eigi að ryðja úr sér þeim óhroða sem Eyjafjallajökull er smám saman að færa í fljótið og síðan verði varnargarðurinn rifinn. Þetta er öðruvísi en þær lausafréttir sem fyrstar voru uppi og mér sýnist á stuttri yfirferð um lög um mat á umhverfisáhrifum að ekki sé víst að þessi framkvæmd falli undir þau. Ég tek aftur þau orð sem ég hef látið um það falla sem auðvitað voru þannig að þá var ekki ljóst hverjar þær framkvæmdir voru.

Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir málflutning hennar og fyrirgef henni að fullu þó að hún hafi látið nokkuð hvína í tálknum. Það er algerlega eðlilegt að menn geri það í ræðustólnum þó að ég sé að vísu ákaflega kurteis við það.