139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

fjárhagsleg staða háskólanema.

[14:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli og ég held að það sé mjög þarft að við ræðum það í þingsal. Ef við lítum til sögunnar var framfærslugrunnur námsmanna hækkaður um 20% í fyrra, en þá hafði hann auðvitað verið allt of lágur um langan tíma og var þá framfærslulán einstaklings 100 þús. kr. Hann var þá hækkaður upp í þessar 120.600 kr. sem er sem sagt grunnur einstaklingslánanna. Við ræddum þessa breytingu talsvert hér í þessum sal. Ætlunin var m.a. að minnka bilið og auka þannig samspilið milli námslána og atvinnuleysisbóta. Hvorki námslán né atvinnuleysisbætur hafa hækkað síðan þá þannig að það má segja að það samspil sé óbreytt en hins vegar hafa bætur eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hækkað núna víða. Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að grunnframfærsla haldist í hendur við þá þróun sem kann að verða í bótakerfinu. Það er mjög mikilvægt að hún fylgi með og sitji ekki eftir.

Nú stendur fyrir dyrum endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Stjórn sjóðsins, þetta eru bæði fulltrúar stjórnvalda og stúdenta, hefur setið vinnufundi, farið yfir lögin og skoðað stöðu sjóðsins. Meðal þess sem hefur verið rætt þar er hvernig staðið skuli að útreikningum á framfærsluþörf námsmanna til framtíðar. Þingmaðurinn spyr eftir þessari vinnu og ég get svarað því að hún er í gangi. Það er verið að skoða bæði lagaumhverfið og hvernig reikna skuli þennan framfærslugrunn.

Ef við skoðum stöðu námsmanna í breiðara samhengi og berum saman tekjurnar eftir fjölskyldugerð og tekjulind má segja að námslánakerfið, og það hefur sögulega gert það lengi getum við sagt, komi betur út en mörg önnur opinber kerfi þegar kemur að barnafólki, þ.e. fólki með börn sem er í námi. Ef við tökum til að mynda einstætt foreldri með tvö börn á leikskólaaldri eru tekjur eftir skatt 230 þús. kr. og tekjur eftir skatt að viðbættum greiðslum vegna barna 326 þús. Ef við tökum hins vegar einstaklinginn sem er barnlaus eru tekjurnar 121 þús. kr. Ef við berum þetta saman við atvinnuleysisbæturnar eru tekjur fyrir skatt 152 þús. kr. hjá einstaklingnum, eftir skatt 133 þús., en hjá einstæðu foreldri fara tekjurnar í 145 þús. kr. eftir skatt og með þessum viðbættu greiðslum verða þær 240 þús. kr. Við sjáum að munurinn á kerfunum er verulegur, þ.e. námslánakerfið hefur verið byggt upp sögulega séð með ákveðnum fjölskylduvænum hætti, þ.e. með því að það bætist við ákveðinn stuðull sem er kallaður barnastuðull. Það þarf líka að skoða þegar litið er til almenna kerfisins og atvinnuleysisbótakerfisins sem tekur merkilega lítið tillit til þessa.

Hv. þingmaður nefnir ástand á vinnumarkaði. Það liggur fyrir að námslánaframfærslan, eins og hún var hugsuð, miðaðist við það að fólk gæti þá aflað sér tekna með öðrum hætti, til að mynda með námi með vinnu eða vinnu yfir sumarið. Meðaltekjur þeirra námsmanna sem hafa fengið lán hjá lánasjóðnum hafa lækkað um 18% frá árunum 2007–2009. Á sama tíma hefur grunnframfærslan hækkað um 28%. Hún var of lág fyrir og á sama árabili hafa tækifæri námsmanna til tekjuöflunar minnkað. Það er alveg augljóst að þessar tölur sýna okkur að heildarinnkoman minnkar en þáttur námslánanna hefur hækkað. Við sjáum að meðalframfærslulán á síðasta skólaári nam 1.080 þús. kr. en ráðstöfunartekjur námsmanna voru 180 þús. kr. á mánuði. Þá eru auðvitað allir inni í því mengi, hvort sem þeir eru einstaklingar eða barnafólk.

Meðaltekjur hafa lækkað um 8% milli áranna 2008 og 2009 en þær voru þó umtalsvert yfir frítekjumarki LÍN. Þetta eru allt upplýsingar sem munu gagnast okkur við það að fara í endurskoðun á framfærsluviðmiðinu. Það er búið að ræða líka talsvert í salnum um framfærsluviðmið almennt í samfélaginu og neysluviðmið og hvernig eigi að reikna út greiðslur frá hinu opinbera í því samhengi. Þar held ég að mjög mikilvægt sé að lánasjóðurinn sé í ákveðnum takti við önnur kerfi, lánin fylgi með, þau sitji ekki eftir eins og hv. þingmaður nefnir. Skólaárið er ekki hið sama og fjárlagaárið en þetta tel ég mjög mikilvægt að verði tekið til sérstakrar skoðunar því að við megum eiginlega ekki við því, viljum við hvetja fólk til náms, að þessi hluti kerfisins sitji eftir.