139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

fjárhagsleg staða háskólanema.

[14:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Það er gríðarlega mikilvægt að við ræðum um stöðu námsmanna og möguleika þeirra til framfærslu. Við hljótum að ætla okkur á þessum erfiðu tímum að hvetja ungt fólk til að fara í nám vegna þess að til þess að leggja inn fyrir framtíðina þurfum við að hafa yfir að búa vel menntaðri þjóð þannig að við getum í framtíðinni séð fram á að hagvöxtur aukist. Góð menntun er undirstaða þess að samfélagið vaxi og dafni og að hagvöxtur aukist.

Það er mikilvægt að við horfum vel á það samhengi þess framfærsluviðmiðs sem Lánasjóður íslenskra námsmanna miðar við og atvinnuleysisbótakerfisins. Ég fagna því að hæstv. menntamálaráðherra er vel meðvituð um þetta verkefni og treysti því að í framtíðinni og á næstu missirum verði fylgst vel með þessari þróun.

Eitt atriði kemur vissulega við námsmenn, húsaleigubæturnar. Það er rétt að talsvert hefur verið rætt um það með hvaða hætti sveitarfélögin ætla að haga þeim málum og hvernig ríkisstjórnin mun koma að þeim málum með sveitarfélögunum. Þetta er málefni sem varðar alla leigjendur, og námsmenn eru að stórum hluta á leigumarkaði. Það þarf að sjálfsögðu að huga að þessum stóra hópi þegar teknar eru ákvarðanir um húsaleigubæturnar.

Mig langar að minnast í örstuttu máli á ungt fólk í háskólanámi vegna þess að ég var með fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra fyrr í vikunni um þá ungu einstaklinga sem hafa þegar lokið stúdentsprófi, eru yngri en 18 ára og eiga ekki kost á fyrirgreiðslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna vegna þess að þeir eru ekki fjárráða. Það er mjög mikilvægt að við tökum tillit til þessa hóps við endurskoðun á reglum og lögum um lánasjóðinn til að þær góðu breytingar sem þáverandi (Forseti hringir.) menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, kom í gegn um að menn geti lokið stúdentsprófi á stuttum tíma nái alla leið þannig að ungt fólk eigi kost á háskólanámi.